Fjórðungur stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum nýtir sér gervigreind mikið í daglegum störfum sínum. Hlutfallið nærri tvöfaldaðist frá lokum 2024 til loka síðasta árs. Í upphafi árs 2024 sögðust 5% stjórnenda nýta sér gervigreind mikið við dagleg störf. Þetta hlutfall hefur því fimmfaldast á innan við tveimur árum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar Prósents. Samkvæmt niðurstöðum Prósents eru stjórnendur stærri fyrirtækja líklegri til að nýta sér gervigreind en stjórnendur minni fyrirtækja. 19% stjórnenda hjá fyrirtækjum með 1 til 10 starfsmenn segjast nýta sér gervigreind mikið. Í fyrirtækjum með 51 starfsmann eða fleiri segjast 34% stjórnenda nýta sér gervigreindina mikið við dagleg störf. Telja aukna skilvirkni helsta kostinn Meirihluti stjórnenda, eða 62%, telur gervigreind eiga eftir að hafa jákvæð áhrif á rekstur síns fyrirtækis á næstu þremur árum. Þeir stjórnendur sem nota gervigreind mikið eru talsvert jákvæðari í garð gervigreindarinnar. 90% stjórnenda sem nota hana mikið telja hana eiga eftir að hafa jákvæð áhrif. Aðeins 20% stjórnenda sem nota gervigreindina ekkert telja hana eiga eftir að hafa jákvæð áhrif á reksturinn. 13% þeirra telja gervigreindina eiga eftir að hafa neikvæð áhrif. „Að mati stjórnenda felast helstu kostir við notkun gervigreindar í aukinni skilvirkni (50%) og meiri tíma fyrir starfsfólk til að sinna öðrum verkefnum (48%). Aðrir hátt metnir kostir eru betri ákvarðanataka (28%), aukin nýsköpun (24%) og minni líkur á mannlegum mistökum (23%),“ segir í tilkynningu Prósents. Helstu ókostirnir að mati stjórnenda eru óáreiðanlegar niðurstöður (60%), skortur á mannlega þættinum í ákvarðanatöku (56%) og að gervigreind sé notuð til ills (53%). Niðurstöður Prósents byggja á netkönnun sem send var til stjórnenda lítilla, meðalstórra og stórra fyrirtækja á Íslandi. 1.250 voru í úrtaki og svarhlutfall var 50%. Gögnum var safnað frá 24. nóvember til 15. desember.