Írönsk stjórnvöld sögð hafa barið mótmæli niður

Færri mótmæla nú í Íran en síðustu daga, að dómi bandarískrar hugveitu. Stjórnvöld í Íran hafi barið mótmæli niður með harðri hendi. Minni líkur eru taldar á hörðum viðbrögðum Bandaríkjamanna. Mótmælin í Íran eru fámennari en áður, samkvæmt bandarísku hugveitunni Institute for the Study of War sem segir að þau gætu þó færst í aukana á ný. Stjórnvöld hafi ekki orðið við kröfum mótmælenda um að fara frá völdum. Lögregla og öryggissveitir hafa barið mótmælin niður með harðri hendi og eru sagðar hafa drepið þúsundir. Á sama tíma hefur verið lokað fyrir aðgang að netinu. Mótmælin, sem eru þau útbreiddustu og fjölmennustu í seinni tíð í Íran, hófust í lok síðasta árs. AFP fréttaveitan greinir frá því að ógnin af því að Bandaríkin geri árásir hafi einnig dvínað í bili, hið minnsta. Embættismenn í Sádi-Arabíu segi að leiðtogar nágrannaríkja Írans hafi talið Trump á að bíða með það. Hann hafði hótað klerkastjórninni harkalegum viðbrögðum ef mótmælendur yrðu drepnir. Staðfest hefur verið að lögregla hafi drepið rúmlega 3.400 mótmælendur, að sögn mannréttindasamtakanna Iran Human Rights, sem eru með aðsetur í Noregi. Líklegt er þó talið að mun fleiri hafi verið drepnir. Framkvæmdastjóri samtakanna, Mahmood Amity-Moghaddam, segir írönsk stjórnvöld hafa framið einhverja alvarlegustu glæpi samtímans. Frásagnir hafi borist af því að mótmælendur hafi verið skotnir til bana á flótta undan lögreglu.