Í Þetta helst í dag er sjónum beint að fámennasta sveitarfélagi landsins, Tjörneshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem íbúar eru á sjötta tug, og óvæntu 248 milljóna króna fólksfækkunarframlagi sem hreppurinn fékk nýlega frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hreppsnefndin vildi afþakka framlagið, en nú hefur komið í ljós að hún getur það ekki - og því stendur til að boða til íbúafundar í næsta mánuði til að ákveða hvað eigi að gera við milljónirnar. Hreppsnefnd Tjörneshrepps hyggst boða til íbúafundar í næsta mánuði um hvernig eigi að eyða 248 milljóna króna fólksfækkunarframlagi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna. Nefndin vildi afþakka framlagið en mátti það ekki. „Fyrst hélt ég náttúrulega að þetta hlyti að vera einhvers konar misskilningur. Við höfðum fundað með Jöfnunarsjóðnum á nýliðnu ári og þá var ekkert í spilunum neitt á þessum nótum og þess vegna átti ég engan veginn von á þessu og þetta var nú satt að segja svolítið áfall,“ segir Aðalsteinn J. Halldórsson, bóndi á Ketilsstöðum og oddviti í Tjörneshreppi. „Við höfðum engan áhuga á því að vera í þeirri stöðu að þiggja svona óeðlilega hátt framlag og þeirri slæmu ímynd sem fylgir þessu.“ „Okkur hefur verið legið á hálsi hérna í litlu sveitarfélögunum oft fyrir að vera einhvers konar ómagar og jafnvel fyrir að vera svona að nýta sér stærri sveitarfélögin óeðlilega og við vissum náttúrulega að svona framlag - sem mér finnst ekkert óeðlilegt að eigi við í þeim tilfellum þar sem veruleg fólksfækkun er og staða samfélagsins mjög erfið - þá vissum við að þetta gæti alveg hiklaust snúist upp í þá umræðu að við værum þarna að þiggja óeðlilega mikið, og okkur fannst þetta líka óeðlilega mikið og finnst enn,“ segir Aðalsteinn og bætir við að rekstur sveitarfélagsins sé með þeim hætti að hann þurfi ekki þennan pening. Málið var því tekið fyrir á fundi hreppsnefndar 13. október. Í fundargerð segir að hreppsnefndin hafi talið það skynsamlegt að afþakka framlag Jöfnunarsjóðs. Það væri álit hreppsnefndar að svona hátt framlag væri fáránlegt og að hreppurinn myndi lifa vel án þess. Oddvita var því falið að afþakka framlagið fyrir hönd hreppsins. „Þá er þetta rætt og það er svona smá hiti í mannskapnum og það er sem sagt ákveðið hafna framlaginu. Við vissum náttúrulega ekki til þess að annað en það væri hægt. Við gátum ekki ímyndað okkur annað,“ segir Aðalsteinn. Hreppurinn fékk allan pottinn En hvað er fólksfækkunarframlag og hvernig er það reiknað? Fyrst ber að nefna að því hefur nú verið breytt eftir að frumvarp innviðaráðherra um jöfnunarsjóð sveitarfélaga var samþykkt síðasta sumar. Farið er betur yfir þau mál hér að neðan en förum yfir reglurnar eins og þær voru þegar Tjörneshreppur fékk úthlutað úr sjóðnum. Í stuttu máli má segja að reglurnar hafi verið með þeim hætti að ef íbúum sveitarfélags hafði á síðustu þremur árum fækkað árlega um meira en eitt prósent að meðaltali átti að reikna út framlag vegna fólksfækkunar. Fjárhæð þessa potts var samkvæmt gamla regluverkinu tiltekið hlutfall, 1,5 prósent þeirra 17,4 milljarða sem voru til ráðstöfunar í framlagi sjóðsins, óháð fjölda sveitarfélaga sem undir viðmiðin féllu eða íbúafjölda þeirra. Þegar þessar reglur voru settar voru sveitarfélögin fleiri og framlögin dreifðust jafnan á mörg þeirra en í fyrra, á síðasta ári þessa gamla regluverks sjóðsins, var einungis eitt sveitarfélag sem uppfyllti viðmið um fækkun umfram eitt prósent síðustu þrjú árin, Tjörneshreppur, sem fékk því allan pottinn. Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, ræddi fólksfækkunarframlagið við Morgunblaðið síðasta haust og sagði þar óvíst hvort hreppurinn gæti yfir höfuð afþakkað það. Það væri þó ákveðin skynsemi í því hjá sveitarfélaginu að bjóðast til að greiða þetta til baka og ráðherra vonaðist til að málið fengi farsæla lausn. Tjörneshreppur væri 50 manna sveitahreppur sem sinnti engri þjónustu. Öll þjónusta til íbúa væri veitt í Norðurþingi og óljóst hvað hægt væri að gera við þessa peninga. Hægt væri að nýta fjármunina miklu betur í öðru sveitarfélagi. Íbúafundur eftir þorrablót Nú hefur komið í ljós að Tjörneshreppur getur ekki afþakkað framlagið. „Það þarf lagabreytingu til og hefði ekki verið hægt að henda henni í gang þarna með engum fyrirvara. Þannig að við erum búin að fá þetta allt saman greitt,“ segir Aðalsteinn. „Við höfðum í sjálfu sér voða lítið um þetta að segja. Maður tók því bara og fór bara að hugsa um næstu skref, hvað hægt væri að gera, vegna þess að eftir sem áður þá líður okkur eins og þetta séu peningar sem að við ættum að nota í eitthvað annað heldur en okkar hefðbundnu tekjur.“ Og hvað nú? Hvernig ætlið þið að eyða þessum óvæntu tæpu 250 milljónum? „Við höfum ekki ákveðið nákvæmlega hvað gera skal nema að við ætlum að halda einfaldan íbúafund í okkar sveitarfélagi í okkar félagsheimili núna í febrúar ef að líkum lætur. Við ætlum að klára þorrablótið okkar af fyrst og þar ætlum við að ræða þetta bara með íbúunum og þar verða tekin næstu skref á þeim fundi,“ segir Aðalsteinn. Eins og áður sagði var frumvarp innviðaráðherra um jöfnunarsjóð samþykkt í fyrrasumar. Frá og með þessu ári eru ýmis framlög Jöfnunarsjóðs sameinuð í eitt, sem á að tryggja betur að úthlutun sé í takt við markmið um sanngjarna jöfnun milli sveitarfélaga og þá er tekið heildstætt mið af stöðu sveitarfélaga, bæði tekjum og útgjaldaþörfum, en í gamla kerfinu virðist að mestu hafa verið horft til einstakra þátta án tillits til annarra. Jafnframt er nú í meira mæli tekið tillit til íbúafjölda sveitarfélaga þegar þörf þess fyrir framlög er metin. Ólíklegt er því að sagan endurtaki sig. Nánar er rætt um þessi mál, hugmyndir um sameiningar og fleira í Þetta helst í dag.