Ummæli Bandaríkjaforseta um Grænland ekki í takt við vilja og skoðanir bandarísku þjóðarinnar

Grænlenski fáninn var dreginn að húni við Kristjánsborg þegar bandarísku þingmennirnir komu til fundarins. Honum er einnig flaggað við mörg ráðhús í Danmörku í dag. Bandarísku þingmennirnir eru ellefu, úr öldungadeild og fulltrúadeild, og koma úr röðum bæði Demókrata og Repúblikana. Frá Kristjánsborg fóru þingmennirnir til hádegisfundar með Samtökum iðnaðarins. Danmörk og Bandaríkin eiga sterkt viðskiptasamband. Höfuðstöðvar danska fyrirtækisins Novo Nordisk eru í Norður- Karólínu í Bandaríkjunum og þar starfa fimm þúsund manns. Einn bandarísku þingmannanna er Repúblikaninn Tom Thillis, öldungadeildarþingmaður Norður-Karólínu. Danska ríkisútvarpið náði stuttu viðtali við Dick Durbin, öldungadeildarþingmann Demókrata sem sagði Bandaríkin og Danmörku hafa verið vina- og samstarfsþjóðir í áratugi. Ummæli Bandaríkjaforseta væru ekki í takt við vilja og skoðanir bandarísku þjóðarinnar.