Bandarísk og dönsk stjórnvöld leggja ólíkan skilning í hlutverk starfshóps sem samþykkt var að skipa eftir fund utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Danmerkur og Grænlands í Washington í vikunni. Talskona Hvíta hússins segir að hópurinn eigi að ræða innlimun Grænlands, Danir og Grænlendingar vilja ræða öryggis- og varnarmál. Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, sagði starfshópnum ætlað að leita lausna og bæta úr ótryggu öryggisástandi sem Bandaríkin halda fram að sé á Grænlandi vegna ásælni Rússa og Kínverja í landið. Karoline Leavitt, talskona Hvíta hússins, sagði á blaðamannafundi í gær að niðurstöður fundarins væru að Danmörk og Bandaríkin hefðu ákveðið að halda áfram samtali um innlimun Grænlands. Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur ítrekað eftir fundinn að hann ásælist enn Grænland. Danir hafi ekki hernaðarlega getu til að verja Grænland fyrir Rússlandi og Kína. Erfitt að reiða sig á bandamann sem greinir öðruvísi frá Aaja Chemnitz, formaður Grænlandsnefndar danska þingsins, sagði yfirlýsingar Hvíta hússins taktlausar í grein um fundinn í The New York Times. Hún gagnrýndi Bandaríkin fyrir að kynna aðrar niðurstöður en þær sem samþykktar voru sameiginlega á fundinum. Haft var eftir henni að ekki væri hægt að reiða sig á bandamann sem komist hefði verið að samkomulagi við en greindi svo allt öðruvísi frá málefninu. „Þú getur ekki reitt þig á bandamann sem þú varst að hitta og komast að samkomulagi með, sem síðan greinir allt öðruvísi frá málefninu’’, var haft eftir henni. Undirbúningur fyrir frekari viðveru danska hersins á Grænlandi Danir hétu því að auka viðveru hersins á Grænlandi. Sama dag og fundurinn í Hvíta húsinu var haldinn var flogið með danska hermenn til Grænlands. Þýskaland, Frakkland, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Holland, auk Bretlands sendu hermenn til að taka þátt í heræfingu Dana sem stendur fram á sunnudaginn. Frá Íslandi verða sendir tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar. Tilgangurinn með æfingunni er að kanna aðstæður og undirbúa frekari viðveru og eftirlit danska sjóhersins við Grænland. Trump vill setja tolla á ríki sem eru ósammála honum um Grænland Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að hann íhugi að setja tolla á þau ríki sem setja sig upp á móti ásælni hans í Grænland.