Sigríður vísar ásökunum Barböru um einelti á bug

Sigríður Hjaltested vísar ásökunum Barböru Björnsdóttur um einelti í rúmlega 20 ár á bug. Báðar hafa þær verið dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 2013. Til tíðinda dró í réttarhöldum yfir Margréti Friðriksdóttur í morgun, sem ákærð er fyrir ærumeiðingar og aðdróttanir í garð Barböru eftir að sú síðarnefnda sakfelldi hana fyrir líflátshótanir. Þeim dómi var síðar snúið í Landsrétti. Barbara sagði við réttarhöldin að ekkert væri til í orðum Margrétar sem sakaði hana um lauslæti, misnotkun dómsvalds og að hafa selt blíðu sína til að komast áfram í dómaraembætti. Hún sagði að orðrómur hefði gengið í dómshúsinu um meint samband hennar og Símonar Sigvaldasonar dómstjóra en sagði hann rangan. Barbara rakti orðróminn til Sigríðar sem hún sakaði um að hafa lagt sig í einelti frá 2003. Sigríður neitar sök „Ég vísa ásökunum Barböru Björnsdóttur um áratugalangt einelti af minni hálfu harðlega á bug,“ segir Sigríður í svari við fyrirspurn fréttastofu. „Málinu var vísað til fagráðs í júlí 2025 til formlegrar meðferðar að beiðni Barböru og hafði dómstjóri milligöngu þar um. Ég mun ekki tjá mig frekar að sinni þar sem málið er enn til meðferðar hjá fagráðinu.“ Valtýr tjáir sig ekki Eitt af því sem kom við sögu í dómsal í morgun er nafnlaust bréf sem var sent dómstólasýslunni 2018 þar sem því var haldið fram að Barbara og Símon ættu í nánu sambandi. Barbara sagði Sigríði hafa skrifað það bréf. Barbara sagði einnig í skýrslugjöf sinni fyrir dómi í morgun að Valtýr Sigurðsson, eiginmaður Sigríðar og fyrrverandi ríkissaksóknari, hefði hótað að gera bréfið opinbert og látið verjanda Margrétar hafa bréfið. Valtýr vildi ekki tjá sig þegar fréttastofa hafði samband við hann.