Landhelgisgæsla Íslands hefur ekki orðið vör við umferð rússneskra herskipa eða ríkisfara, né siglingar kínverskra skipa innan íslenskrar lögsögu eða á aðliggjandi hafsvæðum, þar með talið Grænlandssundi, á undanförnum árum. Þetta kemur fram í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn fréttastofu. Hafa þó ekki getu til að greina kafbáta Í svarinu kemur fram að Landhelgisgæslan hafi þó vitneskju um og fylgist með árstíðabundnum veiðum kínverskra túnfiskveiðiskipa á undanförnum árum, djúpt suður af landinu. Þá hafa rússnesk fiskiskip einnig verið við veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum, rétt utan við suðvesturhluta íslensku efnahagslögsögunnar. Landhelgisgæslan hefur haft upplýsingar um siglingar svokallaðra „skuggaflota“, á afsvæði austur af Íslandi, milli Íslands og Noregs. Gæslan hefur þó ekki getu til að greina kafbáta. „Landhelgisgæslan beitir rauneftirliti, bæði með varðskipum og loftförum, auk gervitunglamynda, sem gagnast meðal annars í þeim tilvikum þar sem skip slökkva á svokölluðum AIS eftirlitsbúnaði til þess að komast hjá því að vart verði við þau,“ segir í svari. Slíkt sé þó ekki algengt á starfssvæði Landhelgisgæslunnar.