Petersen-svítan var opnuð á Menningarnótt í ágúst 2015 - staðurinn er vinsæll og þar er hægt að vera í góðra vina hópi undir beru lofti á stjörnubjörtum nóttum. Sá böggull fylgir skammrifi að hjá góðglöðu fólki slævist oft dómgreindin og því hefur forsætisráðuneytið fengið að kynnast en skrifstofur ráðuneytisins og bílastæði eru í portinu fyrir neðan skemmtistaðinn. Um miðjan desember fengu borgarráðsfulltrúar og heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur erindi frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Undir erindið skrifar Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, og þar rekur hann hvernig forsætisráðuneytið hafi þurft að leggja í töluverðar viðgerðir vegna skemmda sem orðið hafa á bíl ráðuneytisins þegar gestir á útiveitingasvæðinu missa eða henda fram af svölunum glerglösum eða -flöskum. Lögregla hafi áður rætt við eiganda staðarins, beðið hann um að fara yfir þessa stöðu og hann ætlað að skoða málið en hlutirnir ekki breyst til hins betra. Þurft að þrífa ælu af þakgluggum Í bréfinu kemur fram að tjón sem hafi orðið á bílum ráðuneytisins sé upp á aðra milljón króna. Spegillinn sendi í framhaldinu fyrirspurn á forsætisráðuneytið til að fá þetta sundurliðað; hvenær þetta hefði gerst og hversu háar upphæðir þetta væru hverju sinni. Svar frá ráðuneytinu barst í dag. Í júní 2023 lenti hlutur sem hent var af svölum Petersen-svítunnar á þaki bíls ráðuneytisins og gera þurfti við fyrir 460 þúsund krónur. Í maí árið eftir varð aftur tjón á bílnum þegar hlutum var hent ofan af svölunum; framrúða brotnaði og skemmdir urðu á þaki og húddi og tjónið nam 714 þúsund krónum. Í fyrrasumar lenti líka hlutur á bílnum þannig að þakið á honum skemmdist en ekki er búið að gera við það og kostnaður liggur því ekki fyrir. Ráðuneytið segist í svarinu hafa tikynnt skemmdirnar vorið 2024 og sumarið 2025 til lögreglu. Í svarinu kemur líka fram að það hafi þurft að kalla til sérstakra þrifa í portinu vegna glerbrota og þrífa hafi þurft ælu af bílum og þakgluggum á skrifstofuhúsnæði ráðuneytisins. Ráðuneytið hafi rætt við eiganda Petersen-svítunnar en engin formleg erindi verið send á milli. Eiganda þykir illa að sér vegið Í bréfi lögreglu kemur einnig fram að í nýafstaðinni heimsókn lögreglu, fulltrúa Reykjavíkurborgar og slökkviliðs hafi þetta ástand verið rætt við eigendur staðarins, þeim gerð grein fyrir stöðunni og að við þessu þyrfti að bregðast. Lögregla fór þess á leit að unnið yrði með rekstraraðila og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að nágrannar yrðu ekki fyrir tjóni og ónæði. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er málið til meðferðar og skoðunar hjá heilbrigðiseftirlitinu en ekki komið lengra. Guðvarður Gíslason, eigandi Petersen-svítunnar, hefur verið viðloðandi rekstur veitinga- og skemmtistaða í nær hálfa öld, hann er yfirleitt kallaður Guffi og átti meðal annars veitingastaðinn Jónatan Livingston Máv og Gauk á Stöng. Hann var staddur erlendis þegar Spegillinn náði tali af honum en sagði að við þessum ábendingum hefði verið brugðist, meðal annars með því að strengja band yfir svalirnar. Fyrirhugaðar væru fleiri aðgerðir til að loka þessu enn frekar. Guðvarði var þó mikið niðri fyrir og fannst illa að sér vegið, þótti yfirvöld fara offari. Lögregla reyni að bregðast við öllum kvörtunum Tvö til þrjú þúsund manns kæmu í Petersen-svítuna um helgar og það væri ekki þannig að gestir köstuðu glerflöskum eða glösum fram af að gamni sínu - þetta væri einstaka bjáni. Hann benti á að um allan miðbæ væri fólk að skilja eftir glös og flöskur, jafnvel vinna skemmdir á bílum en verið væri að agnúast út í þennan tiltekna stað með þessum hætti. Ásmundur Rúnar Gylfason hjá lögreglunni tekur fyrir að yfirvöld fari fram með einhverju offari. Ekki hafi borist fleiri kvartanir eftir að bréfið var sent en lögregla ætli að fylgja málinu eftir. Lögreglan reyni eftir fremsta megni að bregðast við öllum kvörtunum um sóðaskap og hávaða og beina þeim til þartilbærra yfirvalda.