Lögregla heyrir reglulega af tilraunum til vændiskaupa

Ráðherrum Viðreisnar er brugðið eftir að Guðbrandur Einarsson, þingmaður flokksins, sagði af sér þingmennsku vegna tilraunar til vændiskaupa. Þetta hafi verið rétt ákvörðun. Lögregla fær reglulega slík mál. Guðbrandur hefur setið á þingi fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi frá 2021 og verið formaður umhverfis- og samgöngunefndar síðan í fyrra. Hann var áður í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, en sat í miðstjórn ASÍ árið 2012. Vísir greindi fyrstur fjölmiðla frá afsögn Guðbrands undir fyrirsögninni Segir af sér þingmennsku vegna tilraunar til vændiskaupa . Þar segir að Guðbrandur hafi verið yfirheyrður af lögreglu 2012 vegna rökstudds gruns um vændiskaup, hann hafi þá neitað sök en í yfirlýsingu til Vísis segist hann hafa haft vændiskaup í huga en snúist hugur þegar á staðinn var komið. Samkvæmt 206. grein almennra hegningarlaga skal hver sem greiðir eða heitir greiðslu fyrir vændi sæta sektum eða fangelsi í allt að eitt ár. Áréttað skal að Guðbrandur hefur ekki gefið kost á viðtali og því liggur ekki fyrir hvort hann hafi greitt konunni. Málið væri fyrnt í dag Þegar grunur leikur á um að fólk hafi ætlað að kaupa vændi, þó ósannað sé að það hafi framið verknaðinn, má lögregla kalla það til yfirheyrslu, segir Hildur Sunna Pálmadóttir sviðsstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. „Þegar rökstuddur grunur er um að refsiverð háttsemi hafi verið framin,“ segir Hildur Sunna. Hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar? „Til dæmis samskipti við seljanda vændis, eða brotaþola eins og við kjósum að kalla þá. Eða einhver gögn eða tilkynning um að slíkt brot hafi verið framið.“ Það fer eftir refsiramma hvort mál sem þetta: þ.e. þegar þar sem því sem sagt er í yfirheyrslu hjá lögreglu ber ekki saman við það sem síðar kemur fram. „Hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er eitt ár. Þannig að málið væri í rauninni fyrnt í dag.“ Hafa mál, þar sem fólk ætlar að kaupa vændi, en lætur ekki af verða, komið til ykkar kasta? „Já, það gerist reglulega,“ segir Hildur Sunna. Erfitt og vonbrigði Ráðherrar Viðreisnar segja málið erfitt og vonbrigði. Guðbrandur hafi tekið rétta ákvörðun „Þetta eru vonbrigði. Þetta er auðvitað erfitt mál en hann er búinn að taka ákvörðun í þessu máli. Erfiða ákvörðun sem er að mínu mati rétt,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar. En tilefni alls þessa, eru eins og hann orðaði það sjálfur, tilraun til að kaupa vændi árið 2012. Hvað finnst þér um það? „Ég ætla ekki að fara í vangaveltur út af þessu, bara þannig að það sé skýrt. Guðbrandur tók erfiða ákvörðun en rétta. Hann er búinn að axla ábyrgð strax.“ „Sú afdráttarlausa ákvörðun sem hann tekur strax er allavega til þess fallin að draga minna úr því falli á trausti sem annars hlýtur að verða í kjölfarið á öllum svona málum,“ segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og varaformaður Viðreisnar. „Mér var auðvitað brugðið. Ég held að það sé heiðarleg lýsing á því,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. „Þetta er áfall. Það er vont að missa góðan félaga. En í ljósi aðstæðna tel ég að þetta hafi verið rétt viðbrögð hjá honum,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.