1200 íbúðir í nýju hverfi í Mosfellsbæ

Við Blikastaði eru núna opin og græn svæði en það lítur út fyrir að það breytist - því þar á að rísa nýtt hverfi. Brjóta á um 35 hektara land og reisa 1200 íbúðir, bæði sérbýli og fjölbýli. „Við erum að tala um að fyrsti áfanginn byggist kannski upp á sjö árum þannig að við erum að tala um mörg ár og áratugi,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Fyrsta skrefið er að auglýsa deiliskipulagstillögu og breytingu á aðalskipulagi. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti að gera það í vikunni. Þessi uppbygging hefur verið lengi í undirbúningi og árið 2022 var gert samkomulag við landeigendur. Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar um þrjú þúsund með fyrsta áfanga hverfisins og um níu þúsund með hverfinu í heild. Ræður sveitarfélagið við þessa fjölgun, með tilliti til leikskóla og skóla? „Við munum þurfa að byggja upp. Þegar hverfið verður fullbyggt erum við að tala um tvo grunnskóla og fjóra leikskóla og íþróttahús og í fyrsta áfanganum miðum við við tvo leikskóla og grunnskóla þannig að það þarf auðvitað að fylgjast með þessari uppbyggingu,“ segir Regína. Mörgum finnst ný hverfi vera byggð of þétt og lítið tillit tekið til ljósvistar. Verður það vandamál hér? „Þetta er auðvitað þéttara en við höfum séð í Mosfellsbæ. Hins vegar er mikið af grænum svæðum,“ svarar hún. Regína segir að gróður og græn svæði hafi verið teiknuð inn í hverfið fyrst og síðan íbúðirnar í kring. Næstu vikur verða breytingarnar kynntar á íbúafundum og íbúum gefið svigrúm til athugasemda. En hvenær verður þetta þá að veruleika? „Það er heilmikið ferli eftir í vetur, við skulum bíða og sjá hvenær okkur tekst að klára skipulagið. Síðan er hægt að undirbúa uppbyggingu.“