Signý Sigurðardóttir bætist í hóp þeirra sem sækjast eftir oddvitasæti Viðreisnar í Reykjavík, hún greinir frá þessu í dag. Þegar hafa þrír aðrir boðið sig fram í fyrsta sæti Viðreisnar í borginni en framboðsfresturinn var til 16. janúar. Signý er viðskiptafræðingur að mennt og starfaði um árabil sem forstöðumaður flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu. Í tilkynningunni segir hún sig eiga erindi í oddvitasætið, hún hafi brunnið fyrir stjórnmál í 50 ár. „Að taka skýra afstöðu til mála hefur verið mín sérstaða alla tíð og mér segir svo hugur að það geti verið ágætt innlegg inn í pólitíska umræðu núna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga árið 2026.“ Fjórir sem sækjast eftir oddvitasæti Róbert Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vogum og síðar Grindavík, var fyrstur til að bjóða sig fram. Hann segist standa fyrir valfrelsi í samgöngum svo borgarbúar geti valið hvernig þeir fara til og frá vinnu og séu ekki fastir í umferð. Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, varaþingmaður Viðreisnar og fyrrverandi ríkissáttasemjari, tilkynnti næstur fram á sviðið. Hann segir breytinga þörf í Reykjavík, meðal annars í leikskóla- og grunnskólamálum og nærþjónustu við íbúa. Björg Magnúsdóttir, handritshöfundur og aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar í borgarstjóratíð hans, var sú þriðja til þess að tilkynna framboð sitt. Hún telur að Reykvíkingar vilji breytingar. Kerfið sé dýrt, flækjustigið mikið og lögbundin grunnþjónusta ekki sæmandi höfuðborginni. Þann 31. janúar kemur í ljós hver leiðir Viðreisn í Reykjavík.