Karlalandsliðið í handbolta átti stórgóðan fyrsta leik á EM í þrettán marka sigri, 39-26. Gísli Þorgeir Kristánsson er vitanlega ánægður með sigurinn og segir að íslenska liðið hafi verið mjög agað í leik sínum. „Við vorum með mjög fáa tapaða bolta og við vissum að þetta er óhefðbundið lið. Maður mætir ekki oft svona liði sem er í stanslausum árásum. Mér fannst að einhverju leyti þessi reynsla sem við höfum sankað að okkur á síðustu mótum, að halda haus og gera okkar, sem við gerðum.“ Gísli Þorgeir Kristjánsson átti góðan leik í dag þar sem hann skoraði sjö mörk fyrir Ísland. Hann segist ánægður með agaðan leik íslenska liðsins. Þá segir hann mikilvægt að liðið sé áfram á tánum því brýnt sé að vera ætið 100%. Gísli var í viðtali við sérfræðinga Stofunnar á RÚV eftir leik. Ólafur Stefánsson spurði Gísla hvort það væri eitthvað nýtt í liðinu sem hann sé að upplifa frá síðustu mótum. „Það er ekkert nýtt handboltalega séð en það eru ákveðin smáatriði. Það eru öll lið að spila það sama og fyrir mér eru það litlu smáatriðin skipta langmestu máli. Mér finnst þau vera að smella meira. Það er það sem ég hef fundið fyrir á æfingum, þessi litlu samtöl sem eru svo svakalega mikilvæg. Það er ákveðin ára yfir mönnum, ég ætla auðvitað að halda mig á jörðinni, þetta er bara fyrsti leikur, en það er einhver ára yfir mönnum sem ég er hrifinn af.“ „Það er undir okkur komið að vera á tánum“ Aðspurður um spennustigið og væntingar til liðsins segir hann að liðið hafi sjálf jafnvel mestu væntingarnar. Þó segir Gísli að liðin á mótinu séu afar sterk og leiðin ekki greið. „Mér finnst allt tal um að við eigum einhverja greiða leið inn í undanúrslit finnst mér smá á villigötum. Ef maður er ekki 100% þá er þetta bara vesen.“ Hann bætir þó við að íslenska liðið sé til alls líklegt, sé það upp á sitt besta. „Það er undir okkur komið að vera á tánum.“