Atvinnuvegaráðherra segir ekki tilefni til að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að fyrrverandi ráðherra málaflokksins hefði ekki fylgt lögum við afgreiðslu á umsókn Hvals hf. um hvalveiðileyfi. Umboðsmaður Alþingis telur að meðferð matvælaráðuneytisins á umsókn um leyfi til hvalveiða árið 2024 hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Málsmeðferðartími hafi verið of langur og ákvörðun Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, að takmarka leyfið við eitt ár íþyngjandi. „Við því var brugðist í tíð síðasta ráðherra sem gaf úr lengra leyfi,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. „Það er líka verið að tala um málsmeðferðartímann og ráðuneytið er á þeirri skoðun að hann hafi verið eðlilegur.“ Unnið er að frumvarpi til laga um bann við hvalveiðum hjá ráðuneytinu, sem verður að líkindum lagt fram í haust. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., sagði við Morgunblaðið rétt að ráðherrar sættu fjárhagslegri ábyrgð. Hvalur hefur þegar gert kröfu á íslenska ríkið vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur að synja fyrirtækinu um leyfi til hvalveiða árið 2023. Ekki liggur fyrir hvort sams konar krafa verði gerð vegna ákvörðunar Bjarkeyjar, en ekki hefur náðst í Kristján vegna málsins. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir slíka kröfu ekki komna inn í ráðuneytið. „Nei. Hún er ekki komin fram. Þetta fyrirtæki þarf samkvæmt íslenskum rétti að sýna fram á tjón áður en slík krafa er tekin til skoðunar.“ Starfsmenn Hvals hafa stefnt fyrirtækinu vegna tapaðra launa í kjölfar ákvörðunar Svandísar. Niðurstaða þeirrar bótakröfu gæti reynst grundvöllur fyrir fyrirtækið að krefjast bóta frá ríkinu.