Mikil fulltrúavelta í sveitarstjórnum

Meira en helmingur fulltrúa í sveitarstjórnum var kosinn fyrsta sinni í síðustu kosningum og horfur á að svo verði aftur í vor. Endurnýjunarhlutfallið í sveitarstjórnum hefur verið um 60% í kosningum undnafarið og það er hátt í alþjóðlegu samhengi segir Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðingur. Álagið á sveitarstjórnarmenn sé mikið og umbunin ekki endilega í samræmi við það. Í vor verða kosnir á fimmta hundrað sveitarstjórnarmenn en þeim hefur fækkað mikið síðustu áratugi, voru vel yfir þúsund fyrir aldamót. Það er misjafnt hvernig gengur að manna lista. Tilkynningar frá fólki í stóru sveitarfélögunum sem vill leiða lista eða sækist eftir sæti eru áberandi þessa dagana, en þess eru mörg dæmi að listar séu sjálfkjörnir eða farið í persónukjör, jafnvel á stöðum þar sem búa mörg hundruð.