Blair og Kushner skipaðir í nýja friðarnefnd Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skipað meðlimi í svonefnda friðarnefnd sem hann áætlar að hafi umsjón með 20 liða friðaráætlun hans fyrir Gazaströndina. Í tilkynningu sem Hvíta húsið gaf út á föstudag kom fram að í nefndinni sitji meðal annars Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Jared Kushner, tengdasonur Trumps, Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Steve Witkoff, sérstakur erindreki Trumps í málefnum Mið-Austurlanda. Hinir meðlimir nefndarinnar eru Marc Rowan, forstjóri fjárfestingasjóðsins Apollo Global Management, Ajay Banga, forseti Alþjóðabankastofnananna, og Robert Gabriel, aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna. Í tilkynningunni kemur fram að hver meðlimur fái umsjón yfir tilteknum málaflokkum sem „nauðsynlegir séu til að koma á stöðugleika og stuðla að langtímavelmegun Gaza.“ Bandaríkjastjórn hafði áður tilkynnt um stofnun svonefndrar Þjóðarnefndar um stjórnsýslu Gaza, sem á að fara með daglega stjórn á Gaza eftir lok stríðsins. Ali Shaath, fyrrverandi aðstoðarráðherra í heimastjórn Palestínu, er formaður hennar. Búlgarski stjórnmálamaðurinn Nickolay Mladenov á að vera fulltrúi friðarnefndarinnar á Gaza sem starfar með þjóðarnefndinni. Steve Witkoff tilkynnti í vikunni að annar áfangi friðaráætlunar Trumps fyrir Gaza væri hafinn. Annar áfanginn á að fela í sér afvopnun og endurbyggingu Gazastrandarinnar. Töluverður vafi leikur á því hvernig þessu verður háttað þar sem Hamas-samtökin hafa ekki fallist á að leggja niður vopn og ekkert ríki hefur skuldbundið sig til að leggja til hermenn í friðargæslulið sem á að viðhalda stöðugleika á svæðinu.