Bobi Wine, forsetaefni stjórnarandstöðunnar í Úganda, var tekinn höndum og honum flogið frá heimili sínu í herþyrlu á föstudaginn. Þetta var einum degi eftir forsetakosningar í landinu sem almennt er búist við því að sitjandi forseti landsins, Yoweri Museveni, vinni auðveldlega. Wine hafði áður tilkynnt að lögreglumenn hefðu umkringt heimili hans og að hann hefði verið settur í stofufangelsi. Stjórnmálaflokkur hans, Þjóðeiningarvettvangurinn (NUP), gaf síðan út færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) á föstudag þar sem tilkynnt var að herþyrla hefði lent fyrir utan heimili Wine og flutt hann „á ókunnan stað“. Í færslunni sagði flokkurinn lífverði Wine hafa verið beitta ofbeldi þegar hann var handtekinn. Lokað var fyrir internetaðgang í Úganda í aðdraganda forsetakosninganna en fregnir hafa borist af ofbeldi milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga víðs vegar um landið. Muwanga Kivumbi, þingmaður úr NUP, sakaði öryggissveitir stjórnarinnar í símtali við fréttastofu AFP um að hafa drepið tíu starfsmenn í kosningateymi hans í rassíu á heimili hans. Lögreglan hélt því hins vegar fram að þeir hefðu verið „teknir úr umferð“ vegna fyrirætlana um að kveikja í talningarmiðstöð og lögreglustöð. Yoweri Museveni hefur verið forseti Úganda frá árinu 1986 og hefur tögl og hagldir á öryggis- og stjórnarinnviðum landsins. Í fyrstu tölum sem birtar hafa verið úr kosningunum hefur hann mælst með öruggt forskot, eða um 73,7 prósent atkvæða gegn 22,7 prósentum Wine. Á fimmtudag sakaði Wine stjórnina um stórfelld kosningasvik. Sameinuðu þjóðirnar sögðu í síðustu viku að kosningarnar færu fram í aðstæðum sem einkenndust af „útbreiddri kúgun og hótunum“ gegn stjórnarandstöðunni.