Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur hafið rannsókn á hendur Tim Walz, ríkisstjóra Minnesota, og Jacob Frey, borgarstjóra Minneapolis, vegna möguleika á því að þeir hafi hindrað störf löggæslu á vegum alríkisins. Samkvæmt heimildum CBS News tengist rannsóknin ummælum Walz og Frey um aðgerðir bandaríska innflytjendaeftirlitsins ICE í Minnesota. Refsivert er samkvæmt bandarískum alríkislögum ef tveir eða fleiri menn leggja á ráðin að hindra opinber störf embættismanna alríkisins með „valdi, ógnunum eða hótunum“. Mikil spenna er nú í Minnesota vegna rassía ICE víðs vegar um ríkið, einkum eftir að ICE-liði að nafni Jonathan Ross skaut konu að nafni Renee Good til bana þann 7. janúar. Myndbönd af drápi hennar hafa farið í dreifingu á netinu og hafa vakið mikinn óhug og reiði í Minnesota. Alríkisstjórnin neitar að rannsaka drápið á Good og ýmsir háttsettir embættismenn stjórnarinnar hafa fullyrt að Ross hafi drepið hana í sjálfsvörn gegn „hryðjuverkamanni“. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að virkja lög um uppreisnarástand og senda hermenn til Minnesota vegna yfirstandandi mótmæla gegn ICE í ríkinu. Á föstudag sagðist hann þó ekki telja ástæðu til þess „sem stendur“. Ríkisstjórn Trumps hafði áður sakað Walz og Frey um að egna fólk til ofbeldis gegn ICE með orðbragði sínu í garð stofnunarinnar. Eftir dauða Good sagði Frey ICE (í lauslegri þýðingu fréttamanns) að „drulla sér burt“ frá Minneapolis. Tim Walz brást við rannsókninni í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter): „Fyrir tveimur dögum var það Elissa Slotkin. Í síðustu viku var það Jerome Powell. Þar á undan Mark Kelly. Það að vopnavæða réttarkerfið og hóta pólitískum mótherjum er hættuleg aðferð valdboðssinna. Eina manneskjan sem ekki er verið að rannsaka vegna skotsins á Renee Good er útsendari alríkisstjórnarinnar sem skaut hana.“ „Ég læt ekki hóta mér,“ sagði Frey við fréttastofu BBC. „Þetta er augljós tilraun til að ógna mér fyrir að standa með Minneapolis, löggæslunni okkar á staðnum og íbúum okkar á móti glundroðanum og háskanum sem þessi ríkisstjórn hefur breitt út á göturnar okkar.“ Á föstudaginn skipaði alríkisdómarinn Katherine Menendez ICE að gæta hófs í aðgerðum sínum í Minnesota. Meðal annars skipaði hún stofnuninni að hætta handtökum á friðsömum mótmælendum og beitingu piparúða gegn mótmælendum.