Sjá dagar koma: Segir áhugaverða sögu á lipurlegan hátt en brýtur ekki blað í höfundaverki

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar: Á undan megintexta nýjustu skáldsögu Einars Kárasonar fer „Inngangur höfundar“ þar sem hann gerir grein fyrir tilurð þeirrar sögu sem á eftir fer. Hann kveðst hafa árið 2004 fengið hvatningu frá þáverandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, um að nýta sér sögulegt efni um lúðuveiðar ameríkumanna í Vestfjarðarmiðum í skáldskap. Þótt hann hafi ekki sinnt þeirri hvatningu strax hafi fleiri atriði kveikt áhuga hans á söguefninu, sér í lagi gögn úr fórum forfeðra hans frá þeim tíma sem amerískir lúðuveiðimenn voru á veiðum í Dýrafirði. Kveðst höfundur hafa komist yfir lítið koffort eða ferðakistil úr fórum langaafa síns og þar í fundið böggul merktum Salvari Bernódussyni, sem í voru bréf og dagbækur sem nýttust honum sem meginheimild í söguna. Þarna vakna óneitanlega grunsemdir um að höfundur blandi saman staðreyndum og skáldskap og noti sem efnivið í skáldsögu sína, enda alþekkt vinnubrögð þeirra sem sýsla við skáldskap og ekki síst þess höfundar sem hér um ræðir. Sjálfur skrifar hann reyndar undir lok inngangs síns: Rétt er að geta þess að hér var ekki um neinn samhangandi texta að ræða, heldur var margt sundurlaust og jafnvel illskiljanlegt í einhverju samhengi, en úr punktum og brotum ásamt öðrum ritum og heimildum hef ég með hinum venjulegustu aðferðum skáldsögunnar og höfunda slíkra sagna spunnið upp úr þessu textann sem hér fer á eftir. (14) Ég hygg að líklega sé meira spunnið upp en höfundur lætur í veðri vaka; alla vega reynist árangurslaust að leita sögulegra heimilda um aðalpersónuna sem á að hafa ritað þau bréf og dagbækur sem höfundur segist nota sem grunn að bókinni. Og hefst þá sagan af ævintýralegu lífshlaupi „Salvars Bernódussonar, Dýrfirðings sem var upprunninn í Arnarfirði og sem átti eftir að fara víða“ (15). Frásögninni af Salvari skiptir höfundur niður í fjóra meginhluta sem hver um sig fjallar um tiltekið tímabil í lífi Salvars og tilteknum stað. Fyrsti hluti gerist í Dýrafirði 1895-1896 þegar sögupersóna okkar er sextán ára gamall. Hann er fæddur í Arnarfirði en þegar faðirinn drukknar í sjóróðri þegar Salvar var sjö ára gamall var heimilið leyst upp og fjölskyldunni sundrað, eins og þá tíðkaðist og hefur hann varið meginhluta bernskunnar sem niðursetningur og ómagi í kotbýlinu Brimneskoti við Þingeyri í Dýrafirði. Líkt og Þórbergur Þórðarson og Jóhannes Kjarval gerðu í sinni æsku heillast Salvar af erlendum seglskipum, skonnortum sem eru við lúðuveiðar í Dýrafirði og hefst frásögnin á því að hann sér: „eitt af þessum glæsilegu amerísku skipum, þessum veraldarundrum sem þau voru (… ) létta akkerum á lendingunni fyrir framan þorpið“ (19). Salvar hefur nært með sér þann draum að fá að starfa á slíku skipi og þekkir dæmi um að innlendir menn hafi verið ráðnir á skonnorturnar þegar þörf krafði. Málin æxlast þannig að hann fær skipsrúm og um borð í skonnortunni Cape Anne mætir hann nýjum heimi æði ólíkum þeim sem hann hefur alist upp í. Eftir að hafa verið aflúsaður, baðaður, klæddur í ný föt og fengið grundvallarkennslu í almennum mannasiðum tekur Salvar til starfa og er á skipinu allt sumarið og fram á haust. Hann lærir til verka og nær tökum á enskunni og er þetta upphaf að betra lífi hans bæði til sjós og lands. En Salvar Bernódusson brennur ekki aðeins fyrir eigin hag, hann ber með sér þá hugsjón að „rífa íslenska samfélagið upp úr þessari öskustó eða foraði stöðnunar sem blasti við á öllum sviðum“ (54). Hann heillast bæði af kvæðum og málflutningi þjóðskáldsins Einars Benedikssonar og ásamt fleirum stofnar hann ungmennafélag í Dýrafirði en um þessar mundir var verið að koma slíkum félögum á fót víða um land, með það að markmiði að „endurvekja reisn þjóðveldistímabilsins, verða aflvaki allra dáða og skóli þjóðlegra mennta, andlegra og veraldlegra“ (60). Ungmennafélögin áttu: að reyna að rífa landsmenn upp úr deyfð og doða, fá fólk, sér í lagi það unga fólk sem átti landið að erfa, til að hrista af sér hlekki fátæktar og vesaldóms, menn áttu að fara að rétta úr sér og horfa djarfhuga fram á veginn, hleypa út myglu, sóti og óværu úr húsum, byggja almennilega, horfa til fortíðar þegar þótti sjálfsagt og eðlilegt og ekki þurfa frekari skýringa við að Íslendingar væru syndir, flugsyndir eins og kapparnir Grettir Ásmundarson og Kjartan Ólafsson eins og segir frá í Íslendingasögunum. (61) Eftir aðra sumarvertíð Salvars á ameríska lúðuveiðiskipinu ákveður hann að sigla með skipinu til Ameríku og freista gæfunnar. Annar hluti bókarinnar hefur yfirskriftina „Sal Benson. Vínlandsferð 1896-1903“. Í sex ár dvelur Salvar í Ameríku og ýmislegt drífur á daga hans. Hann starfar sem hafnarverkamaður, við skógarhögg og síðan sem námuverkamaður við silfur-námur í Norðvesturhluta landsins. Það er erfið og hættuleg vinna en málin æxlast á þann veg að þeir verkamenn sem héldu lengst út í þeim þrældómi fá hlut í fyrirtækinu og efnast mjög þegar stór silfuræð opnast í jörðinni, „einhver stærsti silfurfundur í sögu landsins“ (92). Niðursetningurinn Salvar Bernódusson er orðinn milljónamæringurinn Sal Benson. Þriðji hluti frásagnarinnar lýsir því þegar Salvar snýr aftur heim og hefur yfirskriftina „Ísafjörður, Reykjavík 1903-1909“. Heimkoman er gleðileg, Salvar skynjar jákvæðar breytingar á mannlífinu (tilvitnun): Maður hitti á landinu núorðið víða ungt fólk sem hafði af alefli einsett sér að ganga upprétt í lífinu, beita öllum sínum kröftum til framfara og uppbyggingar í landinu, og var það ekki síst fyrir tilverknað ungmennafélaganna á borð við það sem hafði með öðrum, og af ærið fátæklegum efnum, tekið þátt í að stofna í Dýrafirðinum hér á árunum; nú voru þannig félög starfandi í flestum byggðarlögum landsins og útbreiddu af krafti sínar hugsjónir um eflingu lands og þjóðar – sama gilti um ótal íþróttafélög sem höfðu verið stofnuð og þar sem iðkaðar voru greinar eins og sundlistir, glíma, kappleikir með sparki í bolta og annað slíkt sem stælir hug og eflir atgervi. Það átti að rækta land og lýð, eins og boðað hafði verið. (117) Salvar lætur gott af sér leiða í krafti síns nýfengna auðs og njóta móðir hans og systur ekki síst af þeim gæðum. Hann íhugar að hasla sér völl í atvinnulífinu, gerast útgerðarmaður eða efna til verslunarreksturs en hættir við þau áform og heldur til Reykjavíkur þar sem hann kynnist meðal annars Einari Benediktssyni. Svo fer þó að lokum að hann heldur til Englands á vit nýrra ævintýra og þar gerist fjórði og síðasti hluti bókarinnar á árunum 1909-1912. Á Englandi vasast Sal Benson í ýmsu, heimsækir Einar Benediktsson og kynnist efnaðri konu sem hann trúlofast og nýtur með henni menningarlífs stórborgarinnar. Þegar til kastanna kemur reynist trúlofunin á misskilningi byggð, þegar uppruni Salvars Bernódussonar kemur í ljós renna tvær grímur á fjölskyldu unnustunnar og hana sjálfa. Eftir nokkur ár á Englandi ákveður hann að snúa aftur til Ameríku, þar sem honum hafði, „hvernig sem á málin var litið, vegnað allra best á ævinni“ (189). Þegar þarna er komið sögu er Salvar „rúmlega þrítugur og fullur af kröftum“ (189) og hann kaupir sér far með nýju og glæsilegu skipi til New York – bjartsýnn á að ný ævintýri bíði hans. En auðnuhjól Salvars snýst á annan veg en hann ætlaði en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér. Í einu af innskotunum frá höfundi, sem fleyga frásögnina á nokkrum stöðum, skrifar höfundur um lífsferil sögupersónu sinnar: „Í rauninni virtist mér þetta vera hin klassíska íslenska hetjusaga, og sem er þekkt allt frá fornöld: alþýðudrengur heldur utan í víking, vinnur stóra sigra og snýr heim vellauðugur“ (113). Þetta er ágætis lýsing á bókinni og saman við hetjusögu Salvars Bernódussonar er fléttað innskotum um nútímavæðingu íslensks samfélags upp úr aldamótunum 1900. Sjá dagar koma sver sig nokkuð í ætt við önnur verk Einars Kárasonar, hann segir hér áhugaverða sögu á lipurlegan hátt en ekki er hægt að segja að bókin brjóti blað í höfundarverki Einars, enda kannski ekki lagt upp með neitt slíkt við ritun verksins. Soffía Auður Birgisdóttir er doktor í bókmenntafræði og starfar við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún flutti pistilinn í Víðsjá sem finna má í spilaranum hér fyrir ofan