Mariana Mazzucato er prófessor í nýsköpunarhagfræði við University College London og einn af áhrifamestu hagfræðingum heims nú um mundir. Hún hefur verið stjórnvöldum fjölmargra ríkja til ráðgjafar um opinbera verðmætasköpun, sem er hennar sérsvið. Mazzucato var gestur á morgunfundi forsætisráðuneytisins í Grósku í vikunni í tilefni af atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, sem nú er í mótun. Á fundinum kvaðst Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vera undir miklum áhrifum frá hugmyndum hennar. Hingað til hefur ekki verið mótuð ein heildstæð, formleg atvinnustefna á Íslandi. Í reynd má þó segja að stefna stjórnvalda hafi falist í því að knýja fram hagvöxt með því að skapa hagstætt rekstrarumhverfi fyrir lykilgreinar á borð við sjávarútveg, stóriðju og ferðaþjónustu, í trausti þess að vöxtur þeirra skili samfélaginu öllu ábata. Mazzucato telur hins vegar að það sé úrelt nálgun. „Að líta á hagvöxt sem markmið eru stór mistök,“ segir Mazzucato í samtali við Kastljós. Hvaða land vill ekki hagvöxt? En hvernig næst hagvöxtur? Með fjárfestingum – en fjárfestingum í hvað? Jarðefnaeldsneyti og annað slæmt? Nei, í góð mál.“ Stjórnvöld eiga ekki að líta á hagvöxt sem sjálfstætt markmið heldur setja samfélagsleg markmið, sem þau fela einkageiranum að ná, að mati hagfræðingsins Mariönu Mazzuato. Hún var gestur á fundi forsætisráðuneytisins um atvinnustefnu í vikunni. Stjórnvöld vinni af sömu ákefð og á stríðstímum Mazzucato leggur til það sem hún kallar markmiðadrifna atvinnustefnu (e. missions oriented industry strategy). „Það snýst um að endurhugsa hlutverk ríkisins í hagkerfinu. Ég er alltaf jafn undrandi á því að það virðist bara vera þegar stjórnvöld hafa einhver markmið, eins og á stríðstímum, sem þau vakna til lífsins og vinna þvert á ráðuneyti, í góðu samstarfi við einkageirann, að tiltekinni útkomu. Markmið snúast um að vinna af jafn mikilli ákefð og á stríðstímum – hvort sem um er að ræða loftslagsmál, vatnsmál, stafrænar áskoranir eða heilbrigðismál.“ Stefna að lausnum frekar en vexti Hingað til hefur hlutverk stjórnvalda á markaði fyrst og fremst verið að hafa eftirlit með mörkuðum og stíga inn í þegar og þar sem þeir bregðast. Mazzucato telur að ríkið eigi að taka mun virkari þátt í markaðsmótun. Til þess þurfi það að gerbreyta vinnulagi sínu, einkum í samvinnu við einkageirann. Margar atvinnugreinar hafi hingað til getað kallað sig lykilgrein og farið fram á styrki og niðurgreiðslur í krafti þess án nokkurra umbreytinga. Með því að nýta öll úrræði stjórnvalda – opinber innkaup, lán eða skattaívilnanir – sé hægt að örva lausnir og ná ákveðnum markmiðum. „Vanalega gerist hið gagnstæða. Annaðhvort biðja einstakar greinar um peninga, sem er greinamiðuð atvinnustefna, eða þá verkefnabundin stefna. Markmiðadrifin stefna eykur samræmi, samstillingu og kemur hlutnum í verk með því að leysa raunveruleg vandamál.“ Markmið frá ríkinu - lausnir frá einkageiranum Þótt Mazzucato telji að ríkið eigi að setja ríkari kvaðir á fjárveitingar sínar eigi lausnirnar ekki að koma ofan frá. Hún tekur tungllendinguna gjarnan sem dæmi um markmið þar sem stjórnvöld unnu þvert á ráðuneyti með einkageiranum. „Það sem mér finnst áhugavert við markmið er að stefna þeirra er skýr: Komust þið til tunglsins og heim innan tímaramma – já eða nei? Ekkert málskrúð. En lausnirnar eru neðan frá. Þú segir ekki einkafyrirtækjum hvernig þau fari til tunglsins, heldur eftirlætur þeim að leysa það þvert á greinar.“ Ekkert internet án stjórnvalda Mazzucato segir þessar hugmyndir kannski hljóma róttækar – en á stríðstímum séu þær sjálfsagðar. En mörg ljón séu í veginum: hagsmunagæsla, tregðulögmál og skautun. Hvernig yfirstíga stjórnvöld það? „Það er mergur málsins. Ef þú hefur ekki markmið er auðvelt að festast. Þú ert ráðalaus, fólk fer að biðja um greiða og hvernig gerirðu greinarmun? Flöskuhálsarnir eru stundum lagalegir og krefjast lagabreytinga. En það getur líka verið ótti við að breyta til og taka ákvarðanir á annan hátt en hingað til, því við erum vön því að einkafyrirtæki ákveði hvert eigi að stefna á meðan stjórnvöld setji aðeins reglur og séu ekki fyrir. Ef svo væri hefðum við ekki snjallsíma, internetið, GPS eða snertiskjái. Þessar nýjungar urðu til í markaðsmótun og markmiðasetningu hersins.“ Vandinn sé sá að ríkið vinni bara svona fyrir heriðnaðarsamsteypuna. „Ég tel því að ríkisstjórnir breytist ekki nema þær auki metnað og fái sjálfstraust til að beita sér í „venjulegum“ málum af sömu ákefð, metnaði og samvinnu og við gerum yfirleitt bara í stríði.“ Horfa má á allt viðtalið við Mazzucato hér að ofan.