Skoða hvort of mikið lýsi hafi farið í klæðninguna

Talsverðar skemmdir eru á nýlagðri vegarklæðningu á næstum tveggja kílómetra kafla í Hornafirði. Hún brotnar og er strax orðin holótt. Vegarkaflinn er austan við nýtt hringtorg milli bæjanna Haga og Dynjanda. Endurnýjun á veginum er hluti af stórri framkvæmd við nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót. Stærstur hluti framkvæmdarinnar vestan við Höfn. Sá kafli styttir hringveginn um 12 kílómetra en umferð hefur enn ekki verið hleypt á nýja veginn. Eftir er að leggja seinna lag klæðningar á um tveggja kílómetra kafla, ljúka vegmerkingum og setja upp gjaldhlið. Vonir standa til að hægt verði að opna nýja veginn í vor. Vegagerðin kannar hvað veldur því að nýja klæðningin brotnar undan umferðinni á gamla hringveginum. Þar er aðeins komið á fyrra lag af tveimur. Það gæti verið of mikið íblöndunarefni úr lýsi í bikinu en það gæti líka haft áhrif að klæðningin var lögð í nóvember. Mögulega dugir að fylla í holurnar og leggja svo seinna lagið. Líka gæti þurft að fræsa fyrra lagið af og leggja nýja klæðningu frá grunni þegar aðstæður leyfa. Engar vísbendingar um víðtækari skemmdir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir engar vísbendingar um að álíka skemmdir séu á fleiri köflum og þá á nýja veginum yfir Hornafjarðarfljót. Þó að umferð hafi ekki verið hleypt á veginn hefur samkvæmt upplýsingum fréttastofu aðeins reynt á hann því verktakinn hefur keyrt búkollur eftir honum til að þjappa klæðninguna niður. Þá eru ýmsir farnir að laumast til að aka veginn.