Íslendingar ganga að kjörborðinu gamalkunna 16. maí næstkomandi til að kjósa sér sveitarstjórnir. Myndin er farin að skýrast í fimm fjölmennustu sveitarfélögunum. Allur gangur er á hvernig flokkarnir velja fólk á framboðslista sína. Algengasta aðferðin er að flokkarnir stilli upp listum, en sumir standa fyrir prófkjörum eða leiðtogavali fyrir efstu sæti. Framboðsfrestur er til hádegis 10. apríl. Lykildagsetningar í aðdraganda kosninga 3. mars: Kjördagur auglýstur og landskjörstjórn opnar fyrir rafrænt meðmælakerfi. Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga ákveða hvort rafræna kerfið sé notað. 8. apríl: Viðmiðunardagur kjörskrár. Á kjörskrá eru þau sem uppfylla skilyrði til að kjósa í kosningum. 10. apríl: Framboðsfrestur rennur út klukkan 12.00. 10. apríl: Kjörskrá auglýst. Hægt verður að fletta upp hvort einstaklingur sé á kjörskrá eftir þennan dag. 13. apríl: Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga tilkynna um gild framboð. 17. apríl: Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst 16. maí: Kjördagur ( Heimild: Ísland.is ) Reykjavík (23 fulltrúar) Sjö framboð eiga nú fulltrúa í borgarstjórn; Samfylkingin (6), Flokkur fólksins (1), Vinstri græn (1), Píratar (2) og Sósíalistaflokkurinn (2) mynda meirihluta, en Sjálfstæðisflokkurinn (6), Framsóknarflokkurinn (3) og Viðreisn (1) eru í minnihluta. Samfylkingin stendur fyrir bindandi flokksvali um efstu sex sætin hinn 24. janúar. Heiða Björk Hilmisdóttir borgarstjóri og Pétur Marteinsson takast á um efsta sætið. Sjálfstæðisflokkurinn mun stilla upp á lista undir forystu Hildar Björnsdóttur þar sem hún gaf ein kost á sér í leiðtogaprófkjöri. Miðflokkurinn verður með uppstillingu en óvíst er hvenær listi þeirra mun liggja fyrir. Kosið verður um fjögur efstu sætin á framboðslista Framsóknar á kjördæmaþingi 7. febrúar. Einar Þorsteinsson, oddviti og fyrrverandi borgarstjóri, gefur kost á sér. Hjá Viðreisn hafa Aðalsteinn Leifsson, Björg Magnúsdóttir, Signý Sigurðardóttir og Róbert Ragnarsson öll gefið kost á sér í oddvitasæti í leiðtogavali. Leiðtogaval verður 31. janúar. Stjórn Flokks fólksins skoðar framboðsmál. Sósíalistar eru að undirbúa framboð og munu stilla upp á lista. Viðræður standa yfir um framboð undir merkjum Vor til vinstri , sem Sanna Magdalena Mörtudóttir boðaði. Dregið gæti til tíðinda næstu daga. Vinstri græn munu líklega taka ákvörðun um afstöðu sína til framboðs með Vori til vinstri á fundi á morgun. Líf Magneudóttir, oddviti flokksins, hefur lýst yfir að hún gefi kost á sér, sama gerir Finnur Ricart Andrason. Píratar eru sömuleiðis hluti af viðræðunum um framboð með Vori til vinstri. Alexandra Briem oddviti flokksins gefur kost á sér. Kópavogur (11 fulltrúar) Sex framboð eiga fulltrúa í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkur er með 4, Framsókn og Vinir Kópavogs með 2 hvor, og Viðreisn, Píratar og Samfylking eru með 1 fulltrúa hvert. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda meirihluta. Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisflokksins er að störfum. Vinir Kópavogs eru með framboð í undirbúningi. Framsókn kýs í efstu fimm sætin 31. janúar. Samfylkingin verður með flokksval 7. febrúar. Kosið verður um efstu fjögur sæti listans. Jónas Már Torfason gefur kost á sér í 1. sæti. Viðreisn velur í þrjú efstu sætin í prófkjöri 7. febrúar. framboðsfrestur er til 23. janúar. Stjórn Flokks fólksins skoðar framboðsmál. Hafnarfjörður (11 fulltrúar) Fjögur framboð eiga fulltrúa í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru með 4 fulltrúa hvort, Framsóknarflokkurinn er með 2 fulltrúa og Viðreisn 1 fulltrúa. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn verður með prófkjör 7. febrúar. Kristín María Thoroddsen og Orri Björnsson gefa kost á sér í efsta sæti listans. Uppstillingarnefnd raðar á lista Samfylkingarinnar . Listinn verður staðfestur í síðasta lagi 28. febrúar. Framsókn stillir upp á lista. Valdimar Víðisson bæjarstjóri vill skipa efsta sætið á ný. Viðreisn er með prófkjör sem er bindandi fyrir efstu tvö sætin. Karólína Helga Símonardóttir og Jón Ingi Hákonarson gefa kost á sér í efsta sætið. Miðflokkurinn stillir upp lista. Vinstri græn munu stilla upp lista. Stjórn Flokks fólksins skoðar framboðsmál. Reykjanesbær (11 fulltrúar) Fimm framboð eiga fulltrúa í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Samfylkingin eru með 3 fulltrúa hvort og Umbót og Bein leið eru hvort með sinn fulltrúann. Samfylkingin, Framsókn og Bein leið mynda meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn verður með leiðtogaprófkjör 31. janúar. Vilhjálmur Árnason, Unnar Stefán Sigurðsson og Ásgeir Elvar Garðarsson hafa gefið kost á sér. Framsókn verður með rafrænt prófkjör 7. febrúar um efstu fjögur sætin á lista. Samfylkingin mun stilla upp lista. Oddvitinn Guðný Birna Guðmundsdóttir gefur aftur kost á sér í efsta sætið. Umbót stillir upp lista. Viðreisn stillir upp lista. Stjórn Flokks fólksins skoðar framboðsmál. Akureyri (11 fulltrúar) Sjö framboð fengu fulltrúa í kosningunum 2022. L-listinn, bæjarlisti Akureyrar, fékk 3 fulltrúa, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fengu hvor um sig 2 fulltrúa og Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn fengu 1 fulltrúa hver. L-listi, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur mynda meirihluta. L-listinn, bæjarlisti Akureyrar, verður með uppstillingu og er sú vinna hafin. Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins kýs um efstu fjögur sætin á fundi fulltrúaráðs 7. febrúar. Heimir Örn Árnason oddviti flokksins gefur aftur kost á sér í efsta sætið, sem og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Framsókn ákveður fyrirkomulag framboðs á fundi á mánudag. Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti flokksins gefur kost á sér í efsta sæti listans. Stjórn Flokks fólksins skoðar framboðsmál. Miðflokkurinn stillir upp lista. Oddvitinn Hlynur Jóhannsson gefur kost á sér. Samfylkingin stillir upp lista. Sindri S. Kristjánsson varabæjarfulltrúi gefur kost á sér í 1. sæti. Vinstri græn undirbúa framboð og stilla upp lista.