Hægribylgja þegar Trump fjölgar bandamönnum

Kólumbía hefur síðustu ár verið einn helsti bandamaður Bandaríkjanna í rómönsku Ameríku. Þar verður kosið í maí og líklegt að hægrimenn nái þar aftur völdum eftir stutta valdatíð Gustavo Petros, forseta sem lýkur í vor því samkvæmt stjórnarskránni má hann ekki bjóða sig fram til endurkjörs. Núna er líklegast að hægrimaðurinn Abelardo de la Espriella verði næsti forseti, en hann er kallaður hinn kólumbíski Bukele, og þar er vísað til Ívans Bukele, forseta El Salvador. Sá segist vera svalasti einræðisherra álfunnar. Fjallað verður um þetta í Heimskviðum á Rás1 strax að loknum hádegisfréttum. Trump er að fjölga bandamönnum sínum hratt í rómönsku Ameríku og það er líklegt að það verði mikil hægrisveifla í kosningum á árinu, og það má segja að eftir aðgerðir bandaríkjastjórnar í Venesúela sé rómanska-Ameríka klofin og skiptist í samherja Trumps og andstæðinga. Leiðtogar Argentínu, Bólivíu, Panama, Paragvæ og El Salvador fögnuðu því að harðstjóranum Nicolas Maduro hefði verið komið frá en leiðtogar stærstu ríkjanna, Brasilíu, Kólumbíu og Mexíkó fordæmdu inngrip Bandaríkjahers. Þessum þremur stóru er öllum stýrt af vinstri mönnum. Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, sagði þetta alltof langt gengið og minnti á valdaránstilraunir forvera Trumps í Washington sem hefðu ekki gefist vel. Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, gekk enn lengra og kallaði þetta innrás sem yrði bara til þess að auka ófrið og ólgu í álfunni. Og Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, sagði þetta brot á alþjóðalögum og hann væri tilbúinn til að svara af hörku ef Trump reyndi eitthvað svipað í Kólumbíu. Það svar kom kannski ekki á óvart, því það er ekki beint mikill vinskapur milli forsetanna tveggja, en þeir hafa skipst á orðsendingum síðustu ár. „Hann framleiðir kókaín og sendir það til Bandaríkjanna svo honum er betra að vara sig,“ sagði Trump um Petro rétt fyrir áramótin og bætti svo um betur og sagði að Kólumbía yrði næst, á eftir Maduro og Venesúela. Bandaríkin myndu fyrst gera árásir á fíkniefnaverksmiðjur, og svo væri aldrei að vita hversu langt yrði gengið. Venesúela og Kólumbía væru sjúkir nágrannar sem fengju ekki að standa í því að senda fíkniefni til Bandaríkjanna. Trump hótaði Petro öllu illu og hann svaraði, sagðist viðbúinn því að Bandaríkjaher réðist til atlögu. Þetta var undir lok síðustu viku, en svo ræddu forsetarnir tveir saman og féllust á að hittast í Washington í byrjun febrúar. Og núna lítur út fyrir að ekkert verði af hótunum Trumps um hernað í Kólumbíu. En hann á trúlega eftir að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar sem verða í maí, ekki til þess að koma Petro frá, því hann má ekki bjóða sig fram til endurkjörs, heldur til þess að tryggja að þar eigi Trump sér öflugan bandamann, eins og leiðtogar Kólumbíu hafa verið í áratugi. „Þar á eftir að breytast mikið“ Dylan Herrera, alþjóðastjórnmálafræðingur sem var búsettur í Kólumbíu, segir að Trump hafi gengið vel að fjölga bandamönnum í Rómönsku-Ameríku og eigi eftir að halda því áfram. Þau áform hafi komið skýrt fram í þjóðaröryggisáætlun hans sem birt var fyrir áramótin. „Þar er mjög skýrt að hann er með áhrif á rómönsku Ameríku og hann vill búa til bandalög og fjölga bandamönnum þar, eins og það var áður. Og núna eru tvö af þremur fjölmennustu ríkjum rómönsku Ameríka með kosningar þar sem stjórnir eru til vinstri, Brasilía og Kólumbía. Þau eru með kosningar árið 2026 og þar á eftir að breytast mikið,“ segir Dylan. Dylan segir að í þessum tveimur stóru ríkjum, Brasilíu og Kólumbíu, geti orðið miklar breytingar í kosningum ársins. Þá verða einnig forsetakosningar í Kosta Ríka, Haítí og Perú. Líklega taki hægri maður við af Gustavo Petro í Kólumbíu og svo gætu orðið breytingar í forseta- og þingkosningum í Brasilíu í október. Þá verður vinstri maðurinn Lula Da Silva forseti rétt tæplega áttræður en hann tilkynnti óvænt í fyrra að hann ætlaði að sækjast eftir endurkjöri. Það er óvíst hver verður hans helsti keppinautur en afar líklegt að Donald Trump eigi eftir að styðja Flavio Bolsonaro, son hægrimannsins Jairs Bolsonaro, sem var forseti til 2023. Petro of umhugað um utanríkismál Dylan segir áhugavert að fylgjast með því hvernig hægrimenn í þessum tveimur ríkjum eigi eftir að tengja sig við Trump og meta hvort það komi þeim betur að bæta samskiptin við Bandaríkin og vera í góðu sambandi við hann. Gustavo Petro hefur brennt sig á þessu og að margra mati farið of mikinn í gagnrýni sinni á Trump, sérstaklega þegar kom að stuðningi Bandaríkjastjórnar við hernað Ísraela á Gaza. Dylan segir að margir Kólumbíumenn hafi tekið því illa, að áherslur forsetans séu á utanríkismál en ekki það sem skipti Kólumbíumenn mestu. „Auðvitað er fólk í Kólumbíu að hugsa, já frábært en af hverju er hann ekki að tala um vandamálin okkar hér í Kólumbíu eins og í öðrum löndum, á Gaza til dæmis. Það er eitthvað sem gæti kostað hann mikið í kosningunum. Að hann sé bara að fókusa á útlönd en ekki okkur, hvað er í gangi. Og öryggistilfinning í Kólumbíu er að minnka rosalega mikið. Nokkrar kólumbískar borgir eru að hugsa, við erum komin aftur til gömlu tímanna þar sem fíkniefnahópar stýrðu með miklu ofbeldi og átökum, líka skæruliðasveitir að beita sér og ræna fólki og við viljum ekki þetta, svo núna er Kólumbía á mjög sérstökum punkti, og þessar kosningar gætu breytt miklu,“ segir Dylan. Það er ljóst að nýr forseti tekur við eftir kosningar. Samkvæmt nýjustu könnunum er hægrimaðurinn Abelardo De la Espriella líklegastur til að taka við forsetaembættinu. Hann stofnaði flokkinn Verjum heimalandið og mælist með 28 prósenta fylgi en líklega verður hans helsti keppinautur vinstrimaðurinn Iván Cepeda, sem mælist með 26,5 prósent. Það stefnir í að það verði óvenju mörg framboð í kosningunum, sérstaklega af miðjunni og hægra megin, sem flækja stöðuna og gætu orðið til þess að Iván Cepeda standi best að vígi. Hann á þó enn eftir að fá formlega útnefningu flokksins og koma sínu nafni á kjörseðilinn en það kemur í ljós í mars. Þá verður innanflokksbaráttan frá og við tekur mun flóknari glíma við andstæðinga í öðrum flokkum. Og þar er þegar farið að ræða um sameiginlegt framboð þeirra sem vilja koma í veg fyrir að Cepeda nái kjöri. Hann á sér merkilega fortíð og sagðist í viðtali nýlega aldrei hafa viljað bjóða sig fram til forseta – hann hefði séð hvernig forsetar þjást. Og það má segja að hann hafi sjálfur fundið fyrir dekkstu hliðum stjórnmálanna. Faðir hans, þingmaðurinn Manuel Cepeda, var skotinn til bana af skæruliðasveitum í Bogotá árið 1994, þegar Ivan var rúmlega þrítugur. Hann varði mörgum árum í að rannsaka morðið og stofnaði um aldamótin samtök fórnarlamba ofbeldisglæpa í Kólumbíu á níunda og tíunda áratugnum. Upp úr því bárust honum lífslátshótanir og hann fór í útlegð til Frakklands. Cepeda snéri ekki aftur til Kólumbíu fyrr en 2009, komst inn á þing 2014 og hefur setið þar síðan. Frans og fátækasti forsetinn helstu fyrirmyndirnar Hans helstu fyrirmyndir eru Frans páfi og José Mujica, forseti Úrugvæ á árunum 2010 til 2015. Honum var alltaf lýst sem fátækasta forseta heims, en meinlætalifnaðurinn vakti heimsathygli og sú staðreynd að hann gaf níutíu prósent launa sinna til fátækra og smærri frumkvöðla í Úrugvæ. Og Cepeda þykir spennandi valkostur við Gustavo Petro, sem er lýst sem eigingjörnum og átakasæknum en Cepeda sem einlægum gáfumanni. Hann stendur með Petro og hefur varið stefnu hans og ákvarðanir í embætti en þarf að bjóða löndum sínum lausnir vilji hann ná kjöri. Hann segist ætla að ná samkomulagi þvert á flokka um aðgerðir til að taka á glæpahópum og hvernig þeir fjármagna sig. Það hefur Gustavo Petro mistekist. Honum hefur líka gengið illa í ríkisfjármálunum og því þarf eftirmaður hans að taka til. Cepeda segist ekki ætla að draga úr útgjöldum ríkisins heldur sækja aukna fjármuni með því að takast á við spillingu. Hann segir að þar sé af nægu að taka og til marks um það segist hann ætla að byrja innan raða núverandi ríkisstjórnar. Glæpahópar og eiturlyfjasamtök nálgast fyrri styrk Kólumbía er nágrannaríki Venesúela og þangað hefur fjöldi Venesúelamanna farið síðustu misseri í leit að betra lífi. Um þrjár milljónir frá Venesúela búa í Kólumbíu og því hefur Petro forseti haldið góðu sambandi við Maduro í Venesúela, til að freista þess að bæta lífskjör fólks þar til þess að það geti flutt aftur til baka. Því hann veit sem er að áhrifin af hröðu og miklu flóði fólks yfir landamærin hefði mikil áhrif á lífskjör í Kólumbíu og alla innviði. Og af þessu hafa Kólumbíumenn áhyggjur. Þar hefur glæpum fjölgað töluvert, sérstaklega morðum og mannránum. Svo virðist sem glæpa- og eiturlyfjasamtök séu að styrkjast aftur en þau stýrðu öllu því sem þau vildu í Kólumbíu um árabil. Ekkert land framleiðir meira kókaín en Kólumbía og því eru eiturlyfjasamtökin mjög sterk og öflug. Öryggismál eitt helsta kosningamálið Yfirvöld hafa um árabil gert samkomulag við leiðtoga samtakanna en hótanir Trumps hafa líklega hrist upp í þeim. Hann segir að það þurfi að bregðast við straumi kókaíns til Bandaríkjanna og það ætli hann að gera, hvort sem það verði með árásum á verksmiðjurnar eða jafnvel með því að ganga enn lengra. Hann segir Petro flæktan í framleiðsluna og því geri hann ekkert til að stöðva hana. Petro er fyrsti forseti Kólumbíu um árabil sem kemur frá vinstri. Landið hefur verið einn helsti bandamaður Bandaríkjanna í álfunni og þar er gott og sterkt lýðræði. Dylan Herrera segir að það verði áhugavert að fylgjast með kosningabaráttunni sem fór á fullt eftir áramótin. Hann segir að öryggismál verði eitt helsta kosningamálið. „Það gætu orðið stór mistök“ Ný könnun var gerð rétt fyrir áramót en þar var spurt, er gott að vera í góðu sambandi við Trump. Rúmlega áttatíu prósent Kólumbíumanna sögðu já. Dylan segir að þetta eigi ekki aðeins við öryggismál heldur líka í sambandi við viðskipti og fleira. Hann segist ekki sjá fyrir sér átök eða innrás eða að Trump standi við einhverjar af þessum hótunum um að koma Petro frá eða ráðast til atlögu við eiturlyfjagengin. Það gætu reynst dýrkeypt mistök fyrir Trump. „Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér átök. Þessi aðgerð í Venesúela var mjög sérstök. Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér innrás, og á þessum tíma vegna þess að núna þegar þessar þjóðir sem gætu orðið framtíðarbandamenn, gætu minnkað áhrif okkar á þessi lönd ef við gerum innrás. Petro gæti nýtt sér þetta og sagt, sjáið þið, þetta eru ógnirnar. Og þær koma frá þessum manni sem er í sterkum tengslum við þá sem eru á hægri vængnum og ógnar landinu okkar, og það er eitthvað sem Trump þarf að hugsa um. Það gætu orðið stór mistök,“ segir Dylan.