Hyggst ekki hafa afskipti af máli rektors Bifrastar

Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, telur mikilvægt að niðurstaða fáist í mál rektors Bifrastar. „Þetta er mál sem skiptir máli að leysa, þarna eru fjölmargir nemendur og starfsmenn við skólann og mér skilst að þetta sé í farvegi og mikilvægt að það komist botn í þetta mál,“ segir hann. Logi segist þó ekki ætla að hafa afskipti af málinu eða rekstri skólans að öðru leyti. „Nei, nú er þetta einkafyrirtæki, þetta er sjálfseignarstofnun í einkaeign og ég hef engin afskipti af því og sjálfstæði stofnana er með þeim hætti að ráðherra stígur ekki inn í svona mál,“ segir Logi. Félag akademískra starfsmanna við Háskólann á Bifröst lýsti yfir vantrausti á rektor skólans eftir að hún sendi erindi til siðanefndar skólans um fræðigreinar starfsmanna án þess að starfsmönnunum væri gefinn kostur á að veita skýringar. Félagið benti á í yfirlýsingu að málatilbúnaður rektors byggðist á niðurstöðum gervigreindarforrits sem hafi verið látið meta framlag starfsmanna til fræðigreina út frá ferilskrá þeirra. Félagið fer fram á að stjórn skólans, sem hafi verið afhent yfirlýsingin, grípi til ráðstafana því málsmeðferðin hafi valdið trúnaðarbresti. Akademískir starfsmenn geti ekki starfað með slíkum stjórnendum.