Milan Stefán Jankovic kom til Íslands árið 1992 til að spila fótbolta með Grindavík. Hann hafði átt glæsilegan feril í Júgóslavíu, meðal annars verið á mála hjá serbneska stórliðinu Rauðu stjörnunni í Belgrad og var nálægt því að fara með júgóslavneska landsliðinu á heimsmeistaramótið á Ítalíu árið 1990. Árið 1992 braust út stríð í Bosníu þar sem hann spilaði á þeim tíma. Stríðið varð til þess að Milan Stefán flúði og kom til Íslands með milligöngu vinar síns Luka Kostic sem hafði spilað á Íslandi frá 1989. Milan Stefán, eða Janko eins og hann er oftast kallaður, gekk þá í raðir Grindavíkur sem var á þeim tíma í næstefstu deild. Grindavík hefur allar götur síðan þá verið stór hluti af lífi Jankos. Milan Stefán Jankovic kom til Íslands árið 1992 og samdi við Grindavík. Eftir þokkalegt fyrsta ár sannfærði hann Grindvíkinga um nýjan samning og spilaði í kjölfarið frábærlega. Hann var þó á sömu launum öll árin sín sem leikmaður liðsins. Hjartað slær í Grindavík „Ég hef alltaf verið rosalega mikill Grindvíkingur og hef í gegnum tíðina notið virðingar þar. Hvert sem ég fór í Grindavík nægði mér að segja nafnið Janko og þá vissu allir hver ég var. Ég á heldur ekki orð yfir því hvernig það var tekið á móti mér í Grindavík á sínum tíma. Þau hjálpuðu líka fjölskyldunni minni og allt sem okkur vanhagaði um voru einhverjir Grindvíkingar alltaf boðnir og búnir að gera allt fyrir okkur. Þannig ég er mjög þakklátur fyrir það allt saman,“ segir Milan Stefán Jankovic í öðrum þætti Balkanbræðra , útvarpsþáttaraðar í sex hlutum sem flutt er á Rás 1 en er einnig aðgengileg í Spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum. Þakklátur fyrir tækifærið „Ég verð að viðurkenna það að ég spilaði ekkert sérstaklega vel fyrstu leiktíðina mína í Grindavík. Þannig það var ekkert alveg á hreinu hvort það yrði samið við mig um að spila í annað ár. En ég fór með forráðamönnum liðsins á fund og gerði þeim grein fyrir erfiðum aðstæðum í Bosníu. Þannig þeir gáfu mér tækifæri á að spila í eitt ár í viðbót gegn því að það yrði á sömu launum og ég fékk fyrsta árið,“ segir Janko og heldur áfram. „Næstu leiktíð, sumarið 1993, spilaði ég hins vegar svo vel að ég var valinn besti leikmaður Grindavíkur það árið. Luka [Kostic] tók svo við liðinu eftir þá leiktíð og vildi gera við mig nýjan samning. En þá sagði ég við Jónas [Þórhallsson] sem var þá formaður að fyrst þeir gæfu mér tækifæri til að vera áfram þegar ég spilaði ekki nógu vel, þá vildi ég halda bara sömu launum, alveg sama þó ég væri orðinn besti leikmaður liðsins. Þannig að ég spilaði í sjö ár sem Grindavík og var alltaf á sömu launum öll þessi ár,“ segir Janko sem vildi með þessu endurgjalda Grindvíkingum allt sem þeir höfðu gert fyrir hann og segist hafa staðið í þakkarskuld við Grindvíkinga. Þáttaröðin Balkanbræður er á dagskrá Rásar 1 á laugardögum klukkan 10:15 frá 10. janúar til 14. febrúar. Þættina má nálgast í Spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum. Milan Stefán Jankovic kom til Íslands árið 1992 og samdi við Grindavík. Eftir þokkalegt fyrsta ár sannfærði hann Grindvíkinga um nýjan samning og spilaði í kjölfarið frábærlega. Hann var þó á sömu launum öll árin sín sem leikmaður liðsins.