Fjöldafundir í Danmörku og á Grænlandi gegn ásælni Trumps

Fjöldi fólks er saman komið víðs vegar um Danmörku til að mótmæla ásælni Bandaríkjastjórnar í Grænland. Á hádegi að staðartíma hófust fundir í Kaupmannahöfn, Árósum, Álaborg og Óðinsvéum, fjórum stærstu borgum Danmerkur. „Grænland tilheyrir Grænlendingum“ er slagorð mótmælenda. Fólk klæðist fánalitum Grænlands og þannig þeim dönsku um leið, grænlenski fáninn blaktir víða og á skiltum fjölmargra er hrópað: Látið Bandaríkin hverfa, Make America Go Away. A ugljós afbökun á slagorði Donalds Trump. Síðar í dag koma Grænlendingar saman í höfuðstaðnum Nuuk til að senda sömu skilaboð vestur um haf. Trump viðraði hugmyndir í gær um að leggja toll á innflutning frá þeim ríkjum, sem samsinna honum ekki um innlimun Grænlands. Hann fór ekki nánar út í það og því er lítið sem ekkert vitað um þessi áform, en ljóst er að fjöldi Evrópuríkja, þar á meðal Ísland, gæti fallið þar undir. Trump var spurður í gær hvort hann drægi Bandaríkin úr NATO ef bandalagsríki aðstoða hann ekki við að koma höndum yfir Grænland og svaraði hann á þá leið að hann ætti í stöðugu samtali við bandalagið. Stephen Miller, einn nánasti ráðgjafi Trumps, sagði í viðtali á Fox-fréttastöðinni þar vestra í gær að Grænland væri á stærð við fjórðung af meginlandi Bandaríkjanna og efaðist um getu Danmerkur til að verja landið. „Danmörk er agnarsmátt land, með agnarsmáan efnahag og agnarsmáan her. Danir eru ekki færir um að verja Grænland og stjórna Grænlandi,“ segir Miller. Miller hefur tekið einna dýpst í árinni af samherjum Trumps í Hvíta húsinu hvað Grænland snertir. Eiginkona hans, sem eitt sinn starfaði fyrir Trump, rataði í heimsfréttirnar eftir hernaðaraðgerðir Bandaríkjahers í Venesúela í byrjun mánaðar, þegar hún birti mynd af Grænlandi í bandarísku fánalitunum undir yfirskriftinni: BRÁÐUM, í hástöfum.