Geðheilbrigðisþjónusta við fanga verður stórbætt með tilfærslu hennar til Landspítala. Heilbrigðisráðherra segir ekki ásættanlegt að fólk fái ekki þá þjónustu sem því beri. Geðheilsuteymi fangelsa flyst frá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu til Landspítala í apríl til að geta sinnt betur þörfum alvarlega veikra fanga. Úttekt á teyminu fyrir tveimur árum sýndi að fangar fá ekki geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við lög en teymið starfar aðeins á dagvinnutíma og hefur ekki fasta viðveru í fangelsunum. Úttektin var gerð af embætti landlæknis, Alma Möller þáverandi landlæknir og núverandi heilbrigðisráðherra bindur vonir við þennan flutning og segir að verið séer að fara yfir alla starfsemi teymisins. Hvergi nærri hætt umbótum „Það er mikið búið að gera í heilbrigðisþjónustu við fanga á liðnum árum og við erum hvergi nærri hætt úrbótum þar. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að fólk sem er í fangelsum og þarf heilbrigðisþjónustu fái hana ekki,“ segir Alma. Í úttekt Umboðsmanns Alþingis á fangageymslu lögreglu á Hverfisgötu sem birt var í síðustu viku kemur meðal annars fram að fólk í sjálfsvígshættu sé þar vistað án klæða og ekkert sé gert til að tryggja öryggi þess. Alma segir að með breytingunni verði heilbrigðisstarfsfólk ýmist á vakt eða bakvakt í fangelsinu allan sólarhringinn. „Mér finnst það einboðið að það verði að vera aðgangur að heilbrigðisstarfsmanni fyrir fangelsið á Hverfisgötu, við erum þegar búin að setja vakt og bakvakt á Hólmsheiði og erum að skoða hvernig við getum bætt þjónustuna á Hverfisgötu. Þú segir að það sé verið að skoða þetta - en verður þetta gert? „Já, þetta verður gert.“ Hvenær? „Ég get ekki sagt það. Mér finnst vera búið að gera mikið varðandi geðheilbrigðisþjónustu við fanga á liðnum árum. En það er ljóst að það þarf að gera enn betur,“ segir Alma.