Færeyingar eru orðnir þekktir fyrir að bjóða upp á dramatík í leikjum sínum á stórmótum í handbolta. Liðið náði að knýja fram jafntefli á afar dramatískan máta í gærkvöldi gegn Sviss. Sviss leiddi 28-27 þegar afar skammt var eftir af leiknum. Pauli Jacobsen í marki Færeyja varði skot Svisslendinga og Færeyingar geystust fram. Þar skoraði fyrrum Framarinn Vilhelm Poulsen jöfnunarmarkið. Allt ærðist í stúkunni hjá þeim 6.000 Færeyingum sem lögðu leið sína til Oslo þar sem riðill þeirra er leikinn. Norðmenn báðu sérstaklega um Færeyinga, rétt eins og Svíar báðu um að fá Íslendinga í heimsókn. Sviss náði að koma boltanum í netið en þá var tíminn runninn út. Við tók taugatrekkjandi tími þar sem dómararnir skoðuðu lokasekúndurnar en að lokum varð færeyskt stig niðurstaðan.