Eldsneytisverð hefur lækkað í takt við væntingar eftir að kílómetragjaldið tók gildi um áramótin en þrátt fyrir það er hlutur olíufélaganna í bensínlítranum hár, samkvæmt nýrri samantekt ASÍ . Sviðsstjóri hagfræði- og greiningasviðs ASÍ segir álagningu olíufélaganna sögulega háa. . Eldsneytisverð lækkaði í samræmi við væntingar Alþýðusamband Íslands skoðaði þróun á eldsneytisverði eftir kerfisbreytingarnar sem urðu um áramót þegar krónutölugjöld á jarðefnaeldsneyti voru afnumin og kílómetragjald tekið upp. Róbert Farestveit, sviðsstjóri hagfræði- og greiningasviðs ASÍ, segir bensín hafa lækkað í samræmi við væntingar, um tæplega 97 krónur. „Breytingarnar hafa líka þau áhrif að rekstrarkostnaður smærri og sparneytnari bifreiða verður meiri heldur en þeirra stærri. Og þriðji punkturinn er að sé horft yfir lengra tímabil, þá er hlutur olíufélaganna í bensínlítranum hár, þrátt fyrir þessa lækkun sem verður til vegna breytinga á gjöldum.“ Smásöluverð ekki lækkað samhliða lækkun heimsmarkaðsverðs Róbert segir að frá 2018 til 2021 hafi hlutur olíufélaganna lækkað, bæði vegna aukinnar samkeppni, með tilkomu Costo og Atlantsolíu, en einnig vegna lækkana á heimsmarkaðsverði út af heimsfaraldrinum. Heimsmarkaðsverð hækkaði síðan aftur 2022 vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. „Þær hækkanir gengu síðan til baka en smásöluverðið hefur ekki lækkað samhliða þeim breytingum. Þannig að síðustu árin hefur hlutur olíufélaganna aukist í olíuverðinu. Þessar gjaldabreytingar eru svo sem óháðar því en álagningin er sögulega há.“