Systkinin Breki Hrafn og Sindri Snær eru söngvarar hljómsveitarinnar Emmu sem gaf út fyrstu plötuna sína, Halidome, í sumar. Hljómsveitin var stofnuð skömmu fyrir Músíktilraunir 2023 og hefur síðan verið iðin við að spila. Halidome by Emma Þeim systkinum finnst platan hafa fengið góðar viðtökur og hafa bara heyrt góða hluti frá þeim sem hafa hlustað. Þar sem þetta er fyrsta útgáfa þeirra vildu þau gefa tónlistina út þótt það væri ekki endilega með „réttum“ hætti. Þau vildu geta beint fólki að tónlistinni eftir tónleika og fannst það halda aftur af þeim að fólk hefði ekkert að hlusta á. „Okkur langaði að koma þessu frá okkur og út í heiminn og þá svona fyrst verður þetta í alvöru til,“ segir Sindri. Þótt þau njóti ekki heimsfrægðar fái þau mjög einlæga athygli. „Þessi tónlist skiptir mig svo miklu máli og að heyra frá öðrum að núna skipti hún þau máli, það er svo gott í hjartað,“ segir Breki. Fyrir stuttu var hljómsveitin tilnefnd til verðlauna í flokknum Best geymda leyndarmálið í tónlistarverðlaunum Reykjavík Grapevine . „Maður er ekki að reyna að vera leyndarmál,“ segir Breki og kímir. Þeim finnst þó gaman að hafa fengið þessa tilnefningu og hvetja fólk til þess að hlusta á aðrar hljómsveitir sem voru tilnefndar. Breki hefur áður verið viðriðið önnur tónlistarverkefni en Emma er fyrsta hljómsveitin sem Sindri er í. „Ég hef mest allt mitt líf verið með mikið ADHD þannig að ég held að tónlistin hafi alltaf verið í mér,“ segir Sindri, „en það sem ég lenti alveg smá í með ADHD-ið var bara að byrja alltaf á einhverju og svo hætta því,“ heldur hann áfram. Hann lærði því ekki nógu lengi á hljóðfæri en hafði þó alltaf gaman af tónlist og að syngja. „Stór partur af okkar sambandi, hjá mér og Breka, var bara að tala um tónlist.“ Það auðveldaði systkinunum að byrja að semja saman þar sem þau voru á sömu blaðsíðu. Nýlega hélt hljómsveitin tónleika í Mengi sem voru nokkuð frábrugðnir því sem þau gera vanalega. Sveitin var úti á miðju gólfi en ekki á sviðinu og tónleikarnir voru algjörlega órafmagnaðir. Þar sem kveikjan að Emmu var í rauninni sú að Breki og Sindri byrjuðu að semja tónlist fyrir hvort annað kemur tónlistin úr mjög einlægum stað. Svo er hún sett í stærra samhengi með hljómsveitinni. Þeim finnst þessi einlægni þó koma fram á lágstemmdum tónleikum. Þau töluðu einnig meira um lögin á þessum tónleikum en þau eru vön. „Mér líður ótrúlega vandræðalega að tala um það en það hjálpaði mér að tengja við lögin áður en ég spilaði þau,“ segir Breki. Allir í hljómsveitinni hafa sínar eigin og mismunandi tengingar við lögin þótt vissulega sé einhver sameiginlegur kjarni. „Þegar við byrjuðum semja saman þurftum við svolítið að finna leið til þess að geta það og átt lögin saman án þess að þau væru of presónuleg fyrir einn eða annan,“ segir Sindri og þá geta áhorfendur einnig túlkað lögin á sinn eigin hátt. Hljómsveitin stefnir á aðra plötu og eru á fullu að semja ný lög. Þau hvetja fólk að lokum til að hlusta á plötuna. „Ég hef alltaf sagt að mér finnist hún best í samhengi, ég held að þetta sé mjög skemmtileg plata til þess að hlusta á frá byrjun til enda,“ segir Sindri. Fjallað var um Emmu í Ólátagarði á Rás 2. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir neðan. Hljómsveitin Emma var nýverið tilnefnd til verðlauna í flokknum Best geymda leyndarmálið í tónlistarverðlaunum Reykjavík Grapevine fyrir plötuna Halidome.