Svartbakur í bráðri hættu ásamt lunda, fjöruspóa og skúm

Svartbakur bætist við á lista Náttúrufræðistofnunar yfir tegundir fugla hér á landi sem eru í bráðri hættu. Þetta kemur fram í nýjum válista Náttúrufræðistofnunar en aðrar tegundir í bráðri hættu eru lundi, fjöruspói og skúmur. Alls voru 91 tegund metnar og 43 þeirra eru taldar í hættu, samanborið við 41 þegar síðasti válisti var gefinn út 2018. Borgný Katrínardóttir, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir helst horft til stofnbreytinga við matið. „Bráð hætta þýðir það að, ef við horfum bara til stofnbreytinga, þá þýðir það að um eða yfir 80% fækkun hefur orðið í stofninum á ákveðnu viðmiðunartímabili,“ segir hún. 19 tegundir eru taldar í yfirvofandi hættu sem er fjölgun um ellefu tegundir. Borgný segir eina stærstu breytinguna vera að fjórar tegundir vaðfugla flokkast nú í nokkurri hættu: lóuþræll, stelkur, heiðlóa og spói. Ágengni á búsvæði er talin eiga þátt í þróuninni. „Þetta eru tegundir sem er erfitt að eiga við því þær verpa svo dreift,“ segir Borgný. „Þannig að það er ekkert bara hægt að segja ókei, við þurfum að gæta að þessu tiltekna svæði, heldur þarf í rauninni að reyna að leitast við við jafnar framkvæmdir að ganga ekki of á búsvæði þeirra.“ Hún undirstrikar þó að annar stór þáttur séu loftslagsbreytingar og breytingar í umhverfi. Erfitt sé að ráða við slíkt og því mikilvægt að huga að því sem hægt er að stjórna sem er ágengni manna á búsvæði fugla.