Engar vísbendingar um aukna áhættu á einhverfu vegna notkunar parasetamóls á meðgöngu

Öruggt er fyrir konur að taka verkjalyfið parasetamól á meðgöngu og það eykur ekki áhættu á einhverfu, athyglisbresti eða þroskaröskunum hjá börnum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Lancet . Bandaríkjaforseti lagði hart að barnshafandi konum síðasta haust að taka ekki verkjalyfið tylenol, sem inniheldur parasetamól, vegna tengsla þess við einhverfu barna. Rannsakendur skoðuðu niðurstöður 43 ítarlegustu rannsókna um notkun verkjalyfsins á meðgöngu, sem hundruð þúsunda kvenna tóku þátt í. Sérstaklega var horft til rannsókna þar sem móðirin notaði lyfið á meðgöngu og þar sem hún gerði það ekki. Þannig var hægt bera saman systkini og hunsa þætti eins og mismunandi gen og fjölskylduumhverfi. „Þegar við greindum gögnin fundum við engin tengsl, ekkert samband, það eru engar vísbendingar um að notkun parasetamóls auki áhættu á einhverfu,“ segir Asma Khalil, aðalhöfundur rannsóknarinnar. Hún er einnig fæðingalæknir. Aðalskilaboð rannsóknarinnar væru þessi: „parasetamól er öruggur valkostur þegar konur eru þungaðar ef það er tekið samkvæmt leiðbeiningum.“ Hún sagði þetta mikilvægar niðurstöður þar sem parasetamól væri fyrsta verkjalyfið sem læknar mæli með að þungaðar konur taki séu þær með hita eða finni fyrir verkjum. Lyfjastofnun Íslands ítrekaði síðasta haust að ekkert gefi ástæðu til þess að ætla að notkun parasetamóls á meðgöngu valdi einhverfu. Heilbrigðisráðherra hefur einnig sagt að það sé mikil einföldun að ætla það.