Forsvarsmenn Árkórs ehf. segja að ekki hafi staðið til að rífa Fannborg 2 án leyfis. Engin vinna sé hafin við niðurrif á húsinu enda hafi tilskilin leyfi til þess ekki verið veitt. Húsið er í eigu fyrirtækisins og stendur til að íbúðarhús verði byggð á lóð þessi. Í húsinu standi hins vegar yfir innanhússrif sem leyfi sé fyrir. Fjallað var um að byggingarfulltrúi Kópavogs hefði stöðvað ólöglegt niðurrif á húsinu í gær. Í yfirlýsingu sem Árkór ehf. sendi frá sér í dag segir að ráðist hafi verið í afmarkað niðurrif utan á húsinu þar sem þakskyggni hússins hafi verið rofið að hluta. Þetta hafi verið gert til að koma sorpgámi sem næst húsinu. Þannig væri hægt að losa efni úr efri hæðum hússins beint í gám. Aðgerðin hafi ekki verið upphaf niðurrifs á húsinu heldur hafi hún verið framkvæmd til að auðvelda efnisflutninga og stytta heildartíma verksins. Skyggnið sé ekki hluti af burðarvirki hússins og markmið framkvæmdanna hafi verið að lágmarka heildarrask og ónæði fyrir íbúa í nágrenninu. „Það er ljóst að tilkynning og samskipti um þessa afmörkuðu aðgerð voru ekki nægilega formleg gagnvart sveitarfélaginu. Við biðjumst velvirðingar á því og munum fara yfir verklag og samskipti með verktaka og öðrum aðilum til að tryggja að sambærilegt gerist ekki aftur“, segir í yfirlýsingu sem Gísli Steinar Gíslason sendi fyrir hönd Árkórs ehf.