Leiðtogar Evrópuríkja eru harðir í sínum viðbrögðum við ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að setja tolla á vörur frá Evrópuþjóðum sem hafa lýst stuðningi við málstað Grænlands. Hótanir um tolla séu óviðunandi og bandalagsþjóðir Grænlands verði ekki kúgaðar með þessum hætti. Tollastríð færir okkur ekki nær lausn í þessu máli 10 prósent tollar leggjast á allar vörur frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Finnlandi og Bretlandi. Danir hafa þegar aukið viðveru hers síns á Grænlandi og Svíar, Norðmenn og Þjóðverjar hafa tilkynnt að þau hyggist senda hermenn til Grænlands. Frakkar ætla að taka þátt í heræfingu á Grænlandi. Trump sagði á Truth Social tíma til kominn að Danmörk gefi til baka. „Heimsfriður er í húfi! Kína og Rússland vilja Grænland og það er ekkert sem Danmörk getur gert í því.“ Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, segir í skriflegri yfirlýsingu að ákvörðun Trumps sé óvænt en að Danmörk sé í nánu samráði við Evrópusambandið. „Tilgangurinn með aukinni hernaðarviðveru á Grænlandi, sem forsetinn vísar til, er einmitt til að auka öryggi á norðurslóðum.“ Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir á X að Svíþjóð sé í viðræðum við Evrópusambandið, Noreg og Bretland um samhæft svar við ákvörðuninni. „Við leyfum okkur ekki að vera kúguð. Eingöngu Danmörk og Grænland taka ákvörðun um málefni sem varða Danmörk og Grænland.“ Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, hafði ekki tök á viðtali þar sem hún er stödd erlendis en sendi skriflega yfirlýsingu. Þar ítrekar hún stuðning Íslands við Grænland og Danmörku. „Okkar afstaða er skýr og hún er óbreytt. Það er Grænlendinga einna að ráða sinni framtíð. Fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða ber að virða.“ Um það sé breið samstaða meðal Norðurlandanna, Evrópuríkja og Kanada. „Við höfum ekki trú á að tollastríð færi okkur nær lausn í þessu máli.“ Björn Malmquist, fréttamaður RÚV í Brussel, rýndi í stöðuna í kvöldfréttum. Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að setja tolla á vörur frá Evrópuþjóðum, sem hafa lýst yfir stuðningi við Grænland, getur grafið undan samskiptum Evrópu við Bandaríkin. Tollar gætu leitt til hættulegrar niðursveiflu í samskiptum þessara bandamanna. Alröng ákvörðun Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segir afstöðu Bretlands gagnvart Grænlandi mjög skýra. „Það er hluti af danska konungsríkinu og framtíð þess er Grænlendinga og Dana að ákveða.“ Hann segir Breta einnig hafa gert það ljóst að öryggi á norðurslóðum skipti öll NATO-ríki máli og að bandamenn ættu allir að gera meira til að takast á við ógnina frá Rússlandi á miðsmunandi svæðum á norðurslóðum. Starmer fordæmir ákvörðun Trumps. „Að leggja tolla á bandamenn til að tryggja öryggi NATO-ríkja er algjörlega rangt. Við munum ræða þetta beint við Bandaríkjastjórn.“ Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir Frakka styðja fullveldi og sjálfstæði þjóða, bæði í Evrópu og annars staðar. Það sé ástæða þess að Frakkar taki þátt í heræfingu á Grænlandi „Engin hótun eða ógn hefur áhrif á okkur, hvorki í Úkraínu né á Grænlandi, né annars staðar í heiminum þegar við stöndum frammi fyrir svona aðstæðum. Ógnir um tolla eru óásættanlegar og eiga ekki við í þessu samhengi.“ Macron segir Evrópubúa eiga eftir að bregðast við á sameinaðan og samræmdan hátt gagni ákvörðun Trumps um tollana eftir. „Við tryggjum að fullveldi Evrópu verði virt og í þessum anda á ég í samskiptum við evrópska bandamenn.“ David van Weel, utanríkisráðherra Hollands, er í nánu sambandi við aðrar Evrópusambandsins þjóðir um framhaldið og segir heræfingu sem Hollendingar taka þátt í á Grænlandi einmitt til þess að bæta öryggi á norðurslóðum. Tollar grafa undan samskiptum við Bandaríkin Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og António Costa, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, vara við því í sameiginlegri yfirlýsingu í kvöld að tollar auki hættu á niðursveiflu í samskiptum milli Evrópu og Bandaríkjanna. „Landhelgi og fullveldi eru grundvallarreglur alþjóðalaga og nauðsynleg fyrir Evrópu og alþjóðasamfélagið í heild.“ Þau segjast hafa undirstrikað stöðugt sameiginlegan áhuga á friði og öryggi á norðurslóðum, þar á meðal í gegnum NATO. „ESB stendur fyllilega með Danmörku og Grænlendingum.“ Enn sé nauðsynlegt að eiga í samræðum og byggja á samtali milli Danmerkur og Bandaríkjanna sem hófst í vikunni. „Tollar myndu grafa undan samskiptum Evrópu og Bandaríkjanna og hætta á hættulegri niðursveiflu. Evrópa er áfram sameinuð, samhæfð og staðráðin í að standa vörð um fullveldi sitt.“