Leiðtogi stærsta flokkahópsins á Evrópuþinginu vill fresta tollasamningi við Bandaríkin

Manfred Weber, leiðtogi EPP, stærsta flokkahópsins á Evrópuþinginu, segir að fresta eigi staðfestingu þingsins á tollasamningi sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerði við Bandaríkjastjórn síðasta sumar. „EPP er fylgjandi viðskiptasamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, en í ljósi hótana Donalds Trump gagnvart Grænlandi, þá er ekki hægt að staðfesta þennan samning nú,“ skrifaði Weber á samfélagsmiðilinn X í kvöld. „Ákvörðun um tollfrjálsar vörur frá Bandaríkjunum verður að fresta,“ segir Weber og bætir við myllumerki um evrópska samstöðu. EPP (European People´s Party) er stærsti flokkahópurinn á Evrópuþinginu, með 188 þingmenn. Hópurinn er þar að auki hryggjarstykkið í þeim meirihluta sem myndaður var eftir kosningarnar til Evrópuþingsins 2024 og stendur að baki Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Vill beita refsiaðgerðum gegn Bandaríkjunum Bernd Lange, formaður viðskiptanefndar Evrópuþingsins, og þingmaður Sósíal Demókrata - sem eru í meirihluta með EPP - tekur undir þessa afstöðu Webers, en segir einnig að hann telji að framkvæmdastjórnin eigi að beita refsiaðgerðum gegn Bandaríkjunum vegna þessarar yfirlýsingar Trumps. Í því samhengi er verið að tala um ákveðna aðgerð sem kallast „Anti-Coercion Instrument“ (ACI), sem er til staðar í vopnabúri framkvæmdastjórnarinnar, en hefur aldrei verið beitt. Henni er ætlað að svara því þegar önnur ríki reyna að þvinga fram stefnubreytingu á viðskiptaháttum. „Fyrir mér er það krystaltært að þetta [yfirlýsing Trumps] er aðgerð þar sem Bandaríkin eru að nota viðskiptahætti sem verkfæri í pólitískri deilu, og það er nákvæmlega fyrir svona aðstæður sem ACI var búin til,“ sagði Lange í viðtali við Euractiv fjölmiðlinn undir kvöld. Í sama streng tók sænska þingkonan Karin Karlsbro, sem er meðlimur í viðskiptanefnd Evrópuþingsins; Evrópusambandið verði að svara árásum Trumps, líka þeim sem beinast gegn Svíþjóð. „Við getum ekki útilokað mótaðgerðir, eða notkun á ACI, ef þessi þrýstingur og hótanir halda áfram,“ sagði Karlsbro við Euractiv.