Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu töpuðu gegn Serbíu í riðlakeppni Evrópumóts karla í handbolta, 30-27. Þjóðverjar fóru afar illa að ráði sínu í seinni hálfleik en þeir leiddu með fjórum mörkum, 13-17, í hálfleik. Serbía valtaði hins vegar yfir Þjóðverja í seinni hálfleik sem vannst með sjö mörkum. Að lokum vann Serbía þriggja marka sigur. „Þjóðverjar eru bara í sjokki,“ sagði Hörður Magnússon sem lýsti leiknum. Nú er útlitið nokkuð svart fyrir Þjóðverja varðandi að komast í milliriðil. Liðið þarf á sigri að halda í lokaleiknum gegn Spáni en auk þess þarf það að treysta á að Serbía vinni ekki Austurríki. Austurríki hefur tapað báðum leikjum sínum hingað til og Spánn unnið báða sína. Þar sem innbyrðis viðureignir gilda fyrst fer Serbía áfram ef Serbía og Þýskaland enda jöfn með fjögur stig. Serbía er einnig með betri markatölu. Staðan í riðlinum Spánn - 4 stig - +7 í markatölu Serbía - 2 stig - +1 í markatölu Þýskaland - 2 stig - 0 í markatölu Austurríki - 0 stig - -8 í markatölu Þjóðverjar léku á „heimavelli“ Leikurinn var nokkuð jafn en sóknarleikur Þjóðverja hökti á ögurstundu í seinni hálfleik. Liðið skoraði ekki í tæpar sjö mínútur. Staðan var 20-20 eftir 42 mínútna leik. Serbar komust fyrst yfir í stöðunni 22-21 þegar 48 mínútur voru liðnar af leiknum. Leikið var í Herning í Danmörku en leikurinn var svo gott sem heimalökur Þjóðverja, þar sem ógrynni þeirra þýsku lögðu leið sína norður yfir landamærin. Serbar náðu svo tveggja marka forskoti, 23-21, eftir 49 mínútna leik og „heimafólki“ í Herning leist ekki á blikuna. Þá sögðu Þjóðverjar stopp og sneru leiknum sér í vil. Staðan var 24-25 eftir 53 mínútna leik en Serbar komu strax til baka og forskotið var þeirra skömmu síðar, 26-25. Alfreð nagar sig eflaust í handarbökin yfir einu atviki. Á þessum tímapunkti leiksins tók hann leikhlé örskömmu áður en Juri Knorr jafnaði metin í 26-26. Markið stóð því ekki. Að lokum reyndust taugar Serba sterkari undir lokin og unnu þeir þriggja marka sigur, 30-27.