Yfirkjörstjórn Úganda lýsti sitjandi forseta landsins, Yoweri Museveni, sigurvegara nýafstaðinna forsetakosninga á laugardaginn. Samkvæmt opinberum talningum hlaut Museveni tæplega 72% atkvæða en helsti keppinautur hans, Bobi Wine, um 24%. Óljóst er hvar Wine er niður kominn. Á föstudaginn, daginn eftir kosningarnar, fullyrtu bandamenn hans að öryggissveitir stjórnarinnar hefðu gert áhlaup á heimili hans og numið hann á brott með herþyrlu. Úgöndsk stjórnvöld höfnuðu þessu. Í dag staðfesti Wine hins vegar á samfélagsmiðlum að hann hefði komist undan. „Ég vil staðfesta að mér tókst að sleppa frá þeim,“ skrifaði Wine á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter). „Sem stendur er ég ekki heima en konan mín og aðrir ættingjar eru enn í stofufangelsi. Ég veit að þessir glæpamenn leita að mér um allt og ég gæti öryggis míns af fremsta megni.“ Yoweri Museveni hefur verið forseti Úganda frá árinu 1986 og þetta verður sjöunda kjörtímabil hans í forsetaembætti. Í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á að valdatíð hans síðustu fjóra áratugina hafi verið tímabil stöðugleika og hagvaxtar, sér í lagi miðað við rósturtímana sem Úganda fór í gegnum fyrstu áratugina eftir sjálfstæði. Wine sakaði Museveni um stórfellt kosningasvindl í forsetakjörinu. Eftirlitsmenn á vegum Afríkusambandsins sögðust ekki hafa séð ummerki um að átt hafi verið við atkvæði en bentu hins vegar á mýmörg dæmi um hótanir, handtökur og ofbeldi.