Fulltrúar Evrópusambandsins og Mercosur-bandalagsins í Suður-Ameríku undirrituðu fríverslunarsamning sín á milli í Asunción í Paragvæ á laugardag. Rætt hafði verið um samninginn í meira en aldarfjórðung og fyrirætlanir um hann höfðu verið bitbein meðal sumra aðildarríkja ESB. Áætlað er að með samningnum falli 90% allra tolla á milli verslunarsvæðanna smám saman úr gildi. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði ekki unnt að gera of mikið úr mikilvægi samkomulagsins. „Við veljum fríverslun frekar en tolla. Við veljum ábatasamt langtímasamstarf umfram einangrun,“ sagði hún við undirritunarathöfnina. António Costa, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði samkomulagið senda „skilaboð til varnar fríverslun er byggi á reglum, marghliða samvinnu og þjóðarétti til grundvallar samskiptum milli ríkja og heimshluta.“ Hann bætti við að samningurinn væri í skýrri andstöðu við „notkun tolla sem vopns í heimsstjórnmálum.“ Bændur í ýmsum Evrópuríkjum höfðu mótmælt fríverslunarsamningnum af hörku af ótta við að lenda í samkeppni við ódýrar, innfluttar landbúnaðarafurðir frá Suður-Ameríku. Reynt var að koma til móts við þá með ýmsum leiðum, meðal annars því að viðhalda innflutningskvótum á tilteknar vörur eins og nautakjöt. Frakkland, þar sem mótmæli bænda hafa verið hvað hatrömmust, er enn mótfallið samningnum. Þótt Frökkum hafi ekki tekist að koma í veg fyrir samþykkt samningsins tókst þeim að semja um ákvæði sem heimilar að innflutningstollar verði settir á ný ef innflutningsvörur frá Mercosur fara yfir 5% í viðkvæmum geirum. Áður en samningurinn tekur gildi verður bæði Evrópuþingið að fullgilda hann og þing þeirra aðildarríkja Mercosur sem enn ekki hafa gert það, sem eru Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ.