Sjö hermenn í Tjad drepnir í árás RSF-hersins

Sjö tjadneskir hermenn voru drepnir í átökum við súdanska RSF-uppreisnarherinn við landamæri Tjad og Súdans á fimmtudaginn. Talsmaður ríkisstjórnar Tjad, Mahamat Cherif Gassim, tilkynnti þetta á föstudaginn. „Vopnaðir hópar á vegum Bráðastuðningssveitanna (RSF), sem berjast í innanlandsófriðnum í Súdan, rufu ólöglega landamærin og hófu hernaðaraðgerðir á tjadnesku yfirráðasvæði gegn varnar- og öryggissveitum og almennum borgurum í austurhluta landsins,“ sagði Gassim í tilkynningunni. Hann áréttaði jafnframt að atvikið fæli í sér „skýrt, alvarlegt og ítrekað brot gegn landamærahelgi og fullveldi Lýðveldisins Tjad.“ Gassim undirstrikaði að Tjad tæki ekki afstöðu með neinum í borgarastyrjöldinni í Súdan og að ríkið sætti sig ekki við að átökin væru flutt inn á yfirráðasvæði sitt. Í tilkynningunni kom fram að nokkrir hefðu særst auk hermannanna sem væru fallnir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem komið hefur til átaka milli Tjad og RSF-sveitanna. Þann 26. desember voru tveir tjadneskir hermenn drepnir í drónaárás RSF við landamærin. Sameinuðu arabísku furstadæmin, sem hafa verið sökuð um að veita RSF-hernum fjárhagslegan stuðning, fordæmdu „árás vígahóps í suðurhluta Tjad“ í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).