Ár framhaldsmyndanna: Viddi og Þór snúa aftur

Hún heitir einfaldlega Michael, kvikmyndin um Michael heitinn Jackson sem væntanleg er á árinu. Þar verður sögð ferðasaga Jacksons upp á stjörnuhimininn frá því að hann kom fyrst fram á sjónarsviðið með Jackson 5 og þar til hann varð poppstjarnan stóra. Seinni tíma erfiðleikar í lífi Jacksons og ásakanir um kynferðisbrot gegn ungum drengjum koma ekki við sögu. 2026 verður ár framhaldsmynda í kvikmyndahúsum. Leikfangasaga, Avengers, Dune, Jumanji og Scream eru meðal þeirra fjölmörgu sem framhald verður á. Heimskviður skoðuðu kvimyndaárið fram undan með Vidda í Leikfangasögu og fleirum. Dan Reed, sem leikstýrði heimildarmyndinni Finding Neverland, þar sem tveir menn greindu frá kynferðisofbeldi sem þeir sögðu Jackson hafa beitt þá þegar þeir voru börn, segir myndina væntanlegu hvítþvott á sögu Jacksons. Antoine Fuqua leikstýrir myndinni. Hann leikstýrði meðal annars Training Day auk fjölda tónlistarmyndbanda í upphafi ferilsins. Með hlutverk Jacksons fer frændi hans, Jaafar Jackson. Sá er á þrítugsaldri og sonur Jermains Jackson, bróður Michaels. Verðlaunamyndir og heimsbókmenntir Svo er vinsælt í upphafi árs að skauta yfir myndirnar sem eru fyrirferðamiklar við tilnefningar til kvikmyndaverðlauna. Nú í janúar er til dæmis hægt að sjá í kvikmyndahúsum hér á landi Sinners og Hamnet sem báðar voru tilnefndar til fjölda Golden Globe-verðlauna. Þá verður Marty Supreme frumsýnd hér fljótlega, fyrir hana fékk Timothée Chalamet sömu verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki. Þau Margot Robbie og Jacob Elordi glæða lífi eina þekktustu ástarsögu bókmenntasögunnar, Wuthering Heights, í hlutverkum Cathy og Heathcliffs. Fleiri stórmyndir byggðar á stórvirkjum bókmenntasögunnar eru væntanlegar á hvíta tjaldið. Ódysseifskviða í leikstjórn Christophers Nolan þeirra á meðal. Hún var að hluta til tekin upp hér á landi. Svo eru það allar framhaldsmyndirnar Hvað ætli Scream spennu- og hryllingsmyndirnar séu orðnar margar? Þær eru sex en verða sjö í febrúar þegar nýjasta myndin lítur dagsins ljós. Kevin Williamson snýr aftur sem handritshöfundur, og reyndar leikstjóri líka, en hann skrifaði handritin að fyrstu þremur myndunum. Þær Courtney Cox og Neve Campbell snúa sömuleiðis aftur í hlutverkum sínum sem Gale Weathers og Sidney Prescott. 2026 verður ár framhaldsmynda í kvikmyndahúsum. Leikfangasaga, Avengers, Dune, Jumanji og Scream eru meðal þeirra fjölmörgu sem framhald verður á. Heimskviður skoðuðu kvimyndaárið fram undan með Vidda í Leikfangasögu og fleirum. Annað tvíeyki snýr aftur á skjáinn, þær Meryl Streep og Anne Hathaway verða sem fyrr í aðalhlutverkum í framhaldsmyndinni The Devil Wears Prada 2. Og það eru fleiri framhaldsmyndir væntanlegar. Moana 2 kemur í sumar og Spider-Man: Brand New Day er næsti kafli í áframhaldandi sögum af Köngulóarmanninum. Það verður áframhald á Hungurleikunum, en nýjasta myndin á að gerast áður en þær myndir sem þegar eru komnar eiga sér stað. Fjórða gamanmyndin um Focker fjölskylduna kemur í bíó. Ben Stiller, Robert De Niro og öll hin snúa öll aftur í Focker-in-Law. Þá kemur Jumanji 3 í bíó og þriðji kafli Dune. „Það er snákur í stígvélinu mínu“ Fimmta mynd Leikfangasögu, eða Toy Story, er væntanleg í sumar, rúmum þrjátíu árum eftir að sú fyrsta var frumsýnd, árið 1995. Við viljum allt vita um myndina, sem kemur í sumar, og leituðum því til sérlegs talsmanns Vidda; hann heitir Felix Bergsson. „Þegar kemur að söguþræði þá veit ég eiginlega jafn lítið og allir aðrir því ég hef ekki séð myndina enn þá. Ég er bara búinn að frétta að hún er að koma og er búinn að samþykkja að taka þátt og það er búið að ákveða svona nokkurn veginn hvenær á að talsetja hana en að öðru leyti veit ég ekkert mikið meira en allir aðrir. Ég veit að Tom Hanks er með og Tim Allen og ég vona innilega að vinur minn Magnús Jónsson verði þarna líka að leika Bósa ljósár á íslensku, eins og hann hefur gert frá upphafi,“ segir Felix. Felix hefur sömuleiðis verið samferða Vidda allt frá upphafi. „Samfylgdin við Vidda hefur verið dásamleg. Hann hefur verið gríðarlega vinsæll karakter, ekki síst meðal krakka. Og mér hefur alltaf þótt alveg gríðarlega vænt um þessa persónu. Ég skil hann mjög vel, mér finnst hann dálítið nálægt mér í ýmsu. Hann vill hafa allt í röð og reglu og eins og það hefur alltaf verið en hann er líka vinur vina sinna og með gríðarlega stórt og gott hjartalag,“ segir Felix. Þótt ferðalag Felix og Vidda sé nú talið í áratugum á hann fleiri samferðamenn úr Disney heiminum og nægir að nefna Alladín og Simba. „Ég hef verið að tala fyrir nokkra og hef verið að taka það saman að gamni mínu og það er alveg ótrúlega mikið sem kemur út úr því. Já það kemur oft fyrir að fólk snýr sér við þegar það heyrir mann tala og telur Aladín eða Vidda vera mætta. Það er engin spurning að fólk þekkir raddirnar. Og það gerði auðvitað mjög mikið að fá allar þessar frábæru teiknimyndir á íslensku og Tory story er sannarlega þar á meðal. Ég er gjarnan beðinn um að koma með einhverja frasa úr myndinni þegar fólk hittir mig á förnum vegi,“ segir Felix. Enn af Avengers Framhaldasmyndagleði Scream og Leikfangasögu á ekki roð í Avengers kvikmyndabálkinn, þar sem sífellt bætist í. Avengers: Endgame kom út árið 2019. Fyrir næstu jól er komið að því endurtaka leikinn, með ekki síður dramatískum kvikmyndatitli, Avengers: Doomsday. Avengers: Endgame hljómar nú svolítið eins og lokakafli í sögunni, átti það ekki að vera svo? Við leituðum upplýsinga hjá Ragnari Eyþórssyni, sjónvarpsframleiðanda og kvikmyndaáhugamanni. Auk þess að senda ykkur Vikuna með Gísla Marteini í viku hverri veit Raggi eiginlega allt um Avengers-heiminn og alla sem í honum búa. Átti Avengers: Endgame ekki að vera síðasta myndin? „Þetta er lokahnykkurinn í því sem þeir kalla áfanga þrjú: Marvel byrjaði nefnilega á því að gera fyrstu myndirnar sínar í áföngum. Fyrsti áfanginn fór í að kynna sögupersónurnar til leiks, Þór, Captain America og Hulk. Sameinað í Avengers, áfangi eitt búinn. Svo kom áfangi tvö, aðeins flóknari myndir og fleiri myndir, áfangi tvö klárast með annarri Avengers-mynd. Svo ákveða þeir núna þegar kemur að Avengers þrjú þá skulum við blanda öllu saman í einn hrærigraut og kalla það Avengers: Endgame. Þá er þeir tilbúnir að sópa öllu af borðinu og byrja ferskir,“ segir Ragnar Eyþórsson. Upplýsingaóreiðan og falsfréttirnar Næsta mál er þá Avengers: Doomsday, sem kemur í desember. Hvað vitum við um þá mynd? „Þökk sé upplýsingaóreiðunni sem nú er í gangi og sérstaklega gervigreindarmyndböndum þá er orðið rosalega erfitt að sjá hvað er raunverulegt og hvað ekki í komandi framtíð. Áður fyrr lak mikið af ljósmyndum og myndskeiðum af setti á netið og þá gat maður séð hvað var í gangi en nú er endalaust af fólki að leika sér að því að stríða aðdáendunum með því að deila fölskum upplýsingum. Svo maður þarf helst bara að hlusta á Disney og Marvel sjálft. Það sem vitum er það eru komnar fjórar kitlur, svona örstuttar auglýsingar. Þar sjáum við að Captain America snýr aftur, sem er dálítið spes, því hann var 100 ára þegar Endgame kláraðist, hann fór og lifði sínu lífi með kærustunni. Svo er Þór kynntur inn. X-Men sem er stund sem margir hafa beðið eftir því réttindin að þeim voru hjá öðrum en Disney og Marvel og þeir koma loksins inn í hópinn. Og svo loks er það systir Black Panther sem sést tala við Fantastic Four, sem komu fram í mynd síðasta sumar. Þetta eru einu kitlurnar sem eru komnar fram. Allt hitt er upplýsingaóreiða,“ segir Raggi. 2026 verður ár framhaldsmynda í kvikmyndahúsum. Leikfangasaga, Avengers, Dune, Jumanji og Scream eru meðal þeirra fjölmörgu sem framhald verður á. Heimskviður skoðuðu kvimyndaárið fram undan með Vidda í Leikfangasögu og fleirum. Eins og hann nefnir eru margir kallaðir til leiks í nýju myndinni, þeirra á meðal X-Men. Eftir að hafa lifað löngu og góðu lífi á síðum myndasagna var ráðist í gerð kvikmynda. Sú fyrsta var frumsýnd árið 2000 og þær urðu þrettán talsins. En nú snúa X-Men aftur heim til Marvel. „Í lok síðustu aldar seldi Marvel réttinn á myndunum sínum til ýmissa fyrirtækja. Sony fékk Spiderman, Fox fékk X-Men og Fantastic Four. Þegar Marvel svo eignast smá pening fara þeir að kaupa þetta til baka. Fyrst gátu þeir keypt Hulk og Iron man, svo fengu þeir Captain America. Þeir í rauninni stýrðu framleiðslunni sinni eftir því hver var að koma í hús. Svo þegar Disney kom til sögunnar, þá áttu þeir enn meiri pening og þá loksins keyptu þeir X men og Fantastic Four sem voru búin að eiga misgóðar myndir gegnum árin,“ segir Raggi. „Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að þeir ætla að leyfa sögunni að halda sér. X Men byrja í kringum 2000 og fóru sína leið. Marvel vill ekki stroka út þá sögu heldur mæta karakterarnir og sömu leikararnir til leiks í Doomsday. Sem er dálítið merkilegt því þarna eru leikarar sem byrjuðu fyrir 25 árum og eru því aðeins eldri en hefðbundnu hetjurnar.“ Vonda kallinum slaufað Það hefur gengið á ýmsu í herbúðum Marvel við að koma þessu öllu á koppinn. „Það sem er að gerast er að þeir voru svo óheppnir. Þeir voru búnir að vera í geimnum í fasa eitt, tvö þrjú og fjögur, þeir kalla þetta multiverse. Það eru svona margir heimar samsíða. Við erum talsvert á jörðinni en í mismunandi útgáfum af jarðarlífinu. Það einfaldar þeim að sameina heimana, því X Men hafa verið í sinni útgáfu af jörðinni, Fantastic Four í sinni útgáfu og þannig hefur verið hægt að blanda þessu saman. Þetta átti allt að límast saman með vondum kalli sem hét Kang. Hann var kominn í sjónvarpsseríur eins og Loka og sást í Ant Man 3. En leikarinn sem lék Kang var handtekinn fyrir að beita sambýliskonu sína ofbeldi. Og þá féll sá söguþráður út um gluggann og þeir urðu dáltíð að byrja á grunni og hugsuðu til Roberts Downey Jr. sem hóf ævintýrið með þeim í Iron Man árið 2008. Því ekki að fá hann aftur inn og að þessu sinni sem vonda kallinn,“ útskýrir Raggi. Hér má sjá umfjöllun um ákvörðun Marvel um að reka leikarann Jonathan Majors. Hér skulum við henda inn einni höskuldarviðvörun, fyrir þau sem ekki hafa séð Avengers: Endgame og vilja ekki vita hvernig hún endar þá skuluð þið hætta að lesa í bili. Líkt og alvöru ofurhetju sæmir, fórnar Iron Man sér fyrir mannkynið í lok Avengers: Endgame. Robert Downey Jr. var Iron Man en snýr nú aftur í Avengers: Doomsday sem vondi kallinn, Victor Doom, þekktari sem Doktor Doom. Það var á Comic-Con ráðstefnunni sumarið 2024 sem Robert Downey Jr. var afhjúpaður sem hinn nýi Doktor Doom og svo virðist sem viðstaddir hafi verið fremur ánægðir með niðurstöðuna, eins og sá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan. 2026 verður ár framhaldsmynda í kvikmyndahúsum. Leikfangasaga, Avengers, Dune, Jumanji og Scream eru meðal þeirra fjölmörgu sem framhald verður á. Heimskviður skoðuðu kvimyndaárið fram undan með Vidda í Leikfangasögu og fleirum. Hver er Dr. Doom? „Hann er með frægustu stóru óvinunum í Marvel-heiminum,“ útskýrir Raggi. „Það eru Thanos, Kang og Dr. Doom sem eru þessir þrír helstu. Hann var alltaf að berjast við Fantastic Four svo fólk fagnaði því vel þegar þau komu yfir til Marvel frá Fox því loksins var kominn tími á Doom. Mig grunar að þau hafi verið að spara hann svolítið fyrir Fantastic Four en hafi þurft að kippa honum fyrr inn því að Kang heltist úr lestinni. Hann er einræðisherra og hann er vísindamaður sem hefur líka tekið miklu ástfóstri við töfra svo hann getur barist með töfrum en líka með huganum og vísindunum. Hvernig lítur hann út? Hann felur andlit sitt með járngrímu því hann lenti í slysi þegar hann var yngri sem afmyndaði andlitið á honum. Hann telur sig afmyndaðan og er oftast með stálgrímu og sveipar um sig grænni skykkju.“ Siglufjarðarprent kynnti landsmenn fyrir Avengers Raggi nefnir einnig að það verði kærkomið fyrir myndasöguunnendur að sjá Dr. Doom á hvíta tjaldinu því hann eigi um 60 ára sögu í Marvel. Avengers eru nefnilega eldri en margir halda og Raggi, eins og aðrir myndasöguunnendur, hefur fylgst með þeim lengi. Hann nefnir heldur óvænta Íslandstengingu fyrir næstu mynd. Avengers Doomsday kemur sem fyrr segir um jólin. Og ári síðar bjóða sömu leikstjórar upp á Avengers Secret Wars, sem sagt fyrir jólin 2027. „Það sem er skemmtilegt við Secret Wars er að Íslendingum, eða gömlum nördum, ætti að vera kunnugt um Secret Wars því Siglufjarðarprent gaf út þessa teiknimyndasögu 1986 eða '87. Sagan um Huldustríðið var sem sé límt aftan á Spiderman-blöðin í gamla daga. Blöðin voru svolítið þunn og því var ákveðið að líma Avengers: Secret Wars 2 aftan við. Ég man þegar ég var lítill að lesa Spiderman-blöðin og fá svo í fyrsta sinn að kynnast Avengers og X-Men og Fantastic Four. Þetta er sem sé fyrsti staðurinn þar sem Íslendingar fengu að sjá stóru samsettu hetjuhópana,“ segir Raggi. Peningamaskínan Avengers Avengers: Endgame sló aðsóknarmet um allan heim, ekki bara í Bandaríkjunum. Myndin var mest sótta erlenda myndin á frumsýningarhelgi frá upphafi í Kína og hér á landi eru viðlíka viðtökur sjaldséðar. Samkvæmt upplýsingum frá Sambíóunum seldust um 30.400 miðar á myndina á þessari stærstu fimm daga frumsýningarhelgi frá upphafi. Er bara verið að reyna að hala inn meiri pening og er líklegt að það takist? „Þegar þú ert búinn að gera eiginlega stærstu mynd allra tíma er svolítið erfitt að byrja frá grunni. Og myndirnar sem fylgdu í kjölfarið hafa eiginlega ekki gengið sérstaklega vel. Það hafa sömuleiðis bæst við sjónvarpsþáttaraðir þannig að heimavinnan sem fólk þarf að vinna og leggja á sig, til að njóta myndanna sem best, er rosaleg. Svo ég veit ekki hversu vel þeim tekst að fylla kvikmyndasalina ef fólki líður eins og það þurfi áður að horfa á 38 bíómyndir og 20 sjónvarpsseríur. En með því að fá inn Robert Downey Jr. og með því að klukka allar gömlu hetjurnar þá held ég að það ætti að vera óhætt að leyfa sér að spá því að þetta verði stærsta myndin á þessu ári,“ segir Ragnar Eyþórsson.