Dagur Sigurðsson sagði það mikinn létti að hafa unnið til verðlauna á Ólympíuleikum. Hann stýrði þýska landsliðinu í handbolta á mótinu og liðið vann til bronsverðlauna. Dagur segir það sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að hann hafi misst af silfurævintýrinu í Peking, þegar Ísland fór alla leið í úrslitaleikinn árið 2008. Einn versti leikur til að spila í handbolta Dagur tók við þýska landsliðinu árið 2016 og varð þjóðhetja þegar hann vann Evrópumótið í janúar. Síðar sama ár fer Dagur með liðið á Ólympíuleikana í Rio de Janeiro. Hann segir bronsleikinn versta mögulega leik sem hægt er að leika. Þjóðverjar mættu Pólverjum í leiknum um bronsið. „Það var mjög mikill léttir. Þetta er eiginlega versti leikurinn til að spila í þessum bolta. Fjórða sætið og niður úr, það er alltaf það sama. Þú vannst ekki medalíu. Það var mesta magasárið og mesta spennufallið eftir þann leik,“ sagði Dagur um bronsleikinn á ÓL 2010. Dagur ræddi við Gunnlaug Jónsson í innslögum sem Gunnlaugur er með í Sportrásinni á Rás 2 á sunnudögum. Viðtalaröðin ber heitið Góð íþrótt, gulli betri. Annar þáttur af þremur kom út í dag klukkan 10:00 og má finna á öllum hlaðvarpsveitum. Þriðji hlutinn kemur út næsta sunnudag. Bronsið skipti miklu Dagur lék með íslenska landsliðinu frá 1992 til 2005 og lék alls 215 leiki. Hann fór á Ólympíuleikana árið 2004. Bronsið með Þýskalandi sá til þess að svekkelsið að missa af silfrinu varð í raun ekkert. „Það var rosalega sterkt fyrir mig og ánægjulegt að ná bronsinu. Ég hætti í landsliðinu 2005. Svo fara þeir til Peking og taka silfrið. Maður fékk alveg svona „úff, ég missti af þessu.“ Búinn að vera þarna í 10–15 ár þannig það var ógeðslega næs að ná því, ég verð bara að viðurkenna það,“ sagði Dagur.