Hörð viðbrögð í Evrópu vegna Grænlandstolla Trumps

„Algjörlega röng,“ segir forsætisráðherra Bretlands um ákvörðun Bandaríkjaforseta að setja toll á þau ríki sem eru mótfallin innlimun hans á Grænlandi. Keir Starmer hefur verið sá leiðtogi á alþjóðasviðinu sem gengið hefur hvað lengst í tilraunum sínum til að halda Donald Trump góðum síðan hann settist aftur á forsetastól fyrir tæpu ári. Núna kveður við harðari tón. „Óásættanlegt,“ segir Emmanuel Macron Frakklandsforseti um vendingar gærdagsins. Og í því kristallast viðbrögð leiðtoga Evrópuríkja, helstu bandaþjóða Trumps, við nýjum tollum. Greinilegt er að þetta nýjasta útspil í baráttunni um Grænland verður svarað af meiri hörku en önnur útspil Trumps síðastliðið ár. Stóraukin útgjöld aðildarríkja NATO til varnarmála, viðskiptasamningur um 15% toll á innflutning frá ESB-ríkjum til Bandaríkjanna og stöðugar kröfur um að Evrópuríki gefi eftir hvað regluverk um stór tæknifyrirtæki snertir, er allt eitthvað sem leiðtogar Evrópuríkja hafa þurft að kyngja með semingi síðan Trump tók við sem forseti. Ef til vill finnst mörgum þeirra nóg komið núna. Bandaríkin setja toll á Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Finnland, Bretland, Frakkland, Þýskaland og Holland vegna stuðnings þessara ríkja við málstað Grænlands. Tollurinn verður 10% og tekur gildi um mánaðamót. Hann hækkar í 25% í júní og verður ekki dreginn til baka fyrr en gengið hefur verið frá kaupum Bandaríkjamanna á Grænlandi. Þetta setti Trump fram á Truth Social í gær , í færslu sem enn er verið að bregðast við á vettvangi hinna ýmsu Evrópustofnana í Brussel. Í dag koma sendiherrar aðildarríkja gagnvart ESB saman á skyndifundi í borginni og miðla þar þeim skilaboðum sem stjórnvöld í hverju ríki fyrir sig hafa um Grænlandstolla Trump. Á morgun ganga varnarmálaráðherra Danmerkur og utanríkisráðherra Grænlands á fund Marks Rutte, framkvæmdastjóra NATO, í Brussel – eitthvað sem hefur staðið til í einhverja daga en heimildir herma að mögulega komi varnarmálaráðherrar ESB-ríkja á Norðurlöndum saman sömuleiðis við þetta tilefni. Viðbrögðin á Evrópuþinginu hafa verið mjög hörð, svo annað dæmi sé tekið. Þar er útlit fyrir að viðskiptasamningur ESB og Bandaríkjanna, sem Trump kallaði stærsta samning sem gerður hefur verið, verði ekki lögfestur. Samningurinn er enda í algjöru uppnámi eftir tíðindi gærdagsins. Á þinginu er meira að segja rætt um að virkja sérstakt ákvæði, sem kallast Anti Coercion Instrument, sem ætlað er að svara því þegar önnur ríki hóta fjandsamlegum aðgerðum í viðskiptaháttum. Beiting hennar útheimtir þó aukinn meirihluta aðildarríkja Evrópusambandsins, sem ekki er víst að fáist – enda myndi ákvörðun af þessu tagi stigmagna enn frekar deilurnar við stjórnvöld í Bandaríkjunum, á sama tíma og viðræður um friðarsamkomulag í Úkraínu eru á viðkvæmu stigi.