„Ekkert hik á því að gera það sem þarf til þess að treysta íslenska hagsmuni“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir að allt verði gert til þess að tryggja hagsmuni Íslands. Ákvörðun Bandaríkjaforseta að setja tolla á þau lönd sem styðja ekki innlimun Bandaríkjanna á Grænlandi sé mikið áhyggjuefni. Tollastríð geti haft mikil áhrif á litlar þjóðir eins og Íslendinga. Utanríkisráðherra segir ákvörðun Bandaríkjaforseta um að setja tolla á þau lönd sem styðja Grænland mikið áhygjuefni. Allt verði gert til þess að tryggja hagsmuni Íslands. Hún telur ólíklegt að Evrópuríki dragi úr stuðningi sínum við Grænland. „Þessi þróun og þessar yfirlýsingar af hálfu Bandaríkjaforseta eru auðvitað bæði mikið áhyggjuefni en líka mikil vonbrigði, því að þessar þjóðir sem um ræðir eru helstu bandalagsþjóðir innan NATO og hafa átt í mjög sterkum og mikilvægum tengslum þvert yfir Atlantshafið,“ segir Þorgerður Katrín. „Þannig að þetta er ekki leiðin til að tryggja og treysta öryggi Grænlands.“ Þegar hafi mikið verið gert til að auka öryggi á norðurslóðum. Viðbrögð Evrópuleiðtoga við Grænlandstollum Bandaríkjaforseta hafa verið afar hörð. Þorgerður Katrín segir tollastríð alltaf af hinu vonda. Hún býst ekki við að tollar Trumps hafi áhrif á stuðning Evrópuríkja við Grænland. „Ég held ekki. Afgerandi yfirlýsingar, bæði frá aðildarríkjum NATO sem Evrópuríkjum, eins og til að mynda Írlandi í dag, eru mjög afdráttarlausar,“ segir Þorgerður Katrín. „Tollastríð eru alltaf af hinu vonda fyrir þjóðir, vestrænar þjóðir, sem hafa byggt upp friðsæld og lífsgæði m.a. með því að hafa opna markaði, byggja upp frelsi, byggja upp lýðræði, gegnsæi,“ segir Þorgerður Katrín. „Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir litlar og meðalstórar þjóðir eins og okkur Íslendinga, að við lendum einhvers staðar þarna á milli og fáum litlu ráðið. Þannig að þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við eflum enn frekar samstarf eins og við höfum verið að gera m.a. á sviði varnar- og öryggismála.“ „Ekki annaðhvort Evrópa eða Bandaríkin“ Hún segir mikilvægara en oft áður að koma Íslandi í skjól. „Ég mun beita mér fyrir öllum leiðum sem eru í þágu íslenskra hagsmuna og ég tel mjög mikilvægt að við reynum að koma Íslandi í ákveðið skjól,“ segir Þorgerður Katrín. „Við eigum ekki að hlaupast undan þeim merkjum að skoða alla möguleika, þar með talið að halda áfram með aðildarviðræður við Evrópusambandið, en það er auðvitað þjóðin sem ræður því.“ Hún segir líka mikilvægt að halda áfram samstarfi við Bandaríkin. „Við þurfum að halda áfram að efla og treysta samskiptin við Bandaríkin. Eitt útilokar ekki annað. Það er ekki annað hvort Evrópa eða Bandaríkin.“ En er hægt að eiga gott samtal áfram við Bandaríkin eins og staðan er í dag? „Það er auðvitað vissulega snúið, en ég verð samt að draga fram að það hefur verið gott samstarf á milli ríkjanna, Bandaríkjanna og Íslands, til að mynda á sviði varnar- og öryggismála. Hins vegar erum við að sjá dapurlega þróun á milli þessara tveggja vinaríkja þegar kemur að tollum,“ segir Þorgerður Katrín. „Ég sé ekki fyrir mér að vinaþjóðir vinni með þessum hætti, að það er bara skellt alls konar dellu, einhliða, á hina þjóðina.“ Hún segist ekki kunna skýringu á því hvers vegna Ísland var undanskilið tollum Trumps í þetta sinn. Stuðningur Íslands við Grænland sé skýr. „Við Íslendingar þurfum að passa vel á þessum tímum fyrir hvað við stöndum og við stöndum að sjálfsögðu með Grænlandi, því að ef að við myndum ekki standa með fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti Grænlands, þá værum við ekki heldur að standa með sjálfum okkur.“ „En við þurfum að halda, að mínu mati, bandalaginu saman. Ógnin úr austri, hún er enn til staðar.“ Spurð hvort íslensk stjórnvöld séu undir það búin að samstarf við Bandaríkin geti orðið fyrir bí, segir hún mikilvægt að vera ekki óttaslegin en að vera viðbúin. „Þetta eru skrítnir tímar en við Íslendingar, við erum tilbúin og það er margt sem við erum bæði að skoða og höfum sett í farveg og það verður ekkert hik á því að gera það sem þarf til þess að treysta íslenska hagsmuni.“