Löndin átta sem Bandaríkjaforseti hefur hótað nýjum tollum hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær um nýja tolla á Danmörku og fleiri Evrópuríki sem flytja vörur til Bandaríkjanna, frá 1. febrúar. 10 prósenta tollur á að taka gildi 1. febrúar og hækka í 25 prósent frá 1.júní. Tollarnir verða í gildi þar til Bandaríkin hafa gengið frá kaupum á Grænlandi. Ísland er ekki á lista Trumps. Í yfirlýsingunni segir að löndin muni standa saman að því að efla öryggisvarnir á norðurslóðum. Lýsa yfir samstöðu með Danmörku og grænlensku þjóðinni Sendiherrar aðildarríkja Evrópusambandsins gagnvart sambandinu komu saman til skyndifundar í Brussel í dag til að ræða viðbrögð við tollunum. Löndin átta eru Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Noregur, Frakkland, Þýskaland, Bretland og Holland. Í yfirlýsingunni lýsa löndin yfir fullri samstöðu Danmörku og grænlensku þjóðinni. Þau segjast tilbúin í viðræður við Bandaríkin en að viðræðurnar þurfi að byggja á meginreglunni um fullveldi ríkja. „Hótanir um tolla grafa undan samskiptum og auka hættu á niðursveiflu,“ segir í yfirlýsingunni. Þá segir að löndin muni halda áfram að vera samstillt í viðbrögðum sínum og tryggja fullveldi sitt. Á morgun ganga varnarmálaráðherra Danmerkur og utanríkisráðherra Grænlands á fund Marks Rutte, framkvæmdastjóra NATO, í Brussel.