Norska nóbelsnefndin hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, afhenti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, friðarverðlaun sín á dögunum. Í yfirlýsingu nóbelsnefndarinnar segir að eitt af verkefnum hennar sé að vernda sæmd verðlaunanna. Verðlaunin séu veitt þeim sem eigi þau skilið hverju sinni. „Ekki er því hægt að framselja, eða deila, verðlaununum með öðrum en þeim sem hafa hlotnast þau.“ Trump hafði lýst miklum áhuga á að fá verðlaunin Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafði áður lýst yfir miklum áhuga á að fá friðarverðlaun Nóbels. Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, afhenti honum í fyrradag sína eigin viðurkenningu sem hún hlaut þegar hún var útnefnd friðarverðlaunahafi Nóbels í fyrra. Á mynd sem Hvíta húsið birti af Trump og Machado sést Trump halda á ramma þar sem búið er að koma heiðursmerki friðarverðlaunahafans fyrir. Þar er einnig að finna texta um að heiðursmerkið fái Trump sem tákn um þakklæti venesúelsku þjóðarinnar í garð Trumps fyrir að grípa til aðgerða til að tryggja frelsi landsins.