Pawel Bartoszek formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir að farið verði yfir stöðu mála á alþjóðavettvangi á fundi utanríkismálanefndar á morgun. „Við funduðum með ráðherra síðasta fimmtudag til þess að fara sérstaklega yfir málefni Grænlands,“ segir Pawel. Hann hefur boðað fulltrúa utanríkisráðuneytisins aftur á fund nefndarinnar í ljósi vendinga helgarinnar. Donald Trump forseti Bandaríkjanna tilkynnti í gær um nýja tolla á Danmörku og fleiri Evrópuríki sem flytja vörur til Bandaríkjanna, frá 1. febrúar. Tollarnir beinast gegn þjóðum sem hafa lýst yfir stuðningi við málstað Grænlands. 10% tollur á að taka gildi 1. febrúar og hækka í 25% 1. júní. „Við erum því miður að horfa upp á kannski ákveðna vopnvæðingu viðskiptanna sem er þróun sem mér líst ekkert vel á,“ segir Pawel. Hann segir Ísland engu að síður geta beitt sér í málinu. „Við erum fullvalda og sjálfstæð þjóð og við getum beitt okkar áhrifum á alþjóðavettvangi með því að vera í samfloti með líkt þenkjandi þjóðum,“ segir Pawel. „Við getum komið á framfæri okkar skoðun með því að bindast bandalögum eftir því sem við á þannig að auðvitað höfum við ýmis tæki til að hafa áhrif.“