Vinstrihreyfingin-grænt framboð í Reykjavík og Vor til vinstri ætla að bjóða fram sameiginlegan lista í borgarstjórnarkosningum. Sanna Magdalena Mörtudóttir frá Vori til vinstri mun leiða framboðið og fulltrúar Vors til vinstri skipa einnig fjórða og fimmta sæti. Fulltrúar VG munu skipa önnur, þriðja og sjötta sæti listans. Sætum fyrir neðan það verður skipt með jafnræði að leiðarljósi, í hefðbundnum fléttulista. „Nú er tími til að vinstri sinnað félagshyggjufólk standi saman gegn sundrungu og spyrni við þeirri þróun að pólitíska miðjan færist sífellt lengra til hægri. Slík þróun má ekki verða hinn nýi raunveruleiki í íslenskum stjórnmálum,“ segir í tilkynningu frá framboðinu. Félagsfundur VG í Reykjavík haldinn 18. janúar 2026 lýsti stuðningi við áform um sameiginlegt framboð með Vori til vinstri og fól stjórn VGR að ljúka við vinnu við endanlega tillögu að framboðinu. Einnig var samþykkt að halda forval til að velja fulltrúa VG á listanum í þau 3 efstu sæti sem koma í hlut VG. Það verður gert með forvali sem mun fara fram helgina 20.-22. febrúar nk. með rafrænum hætti. Fréttin hefur verið uppfærð.