Sífellt fleiri sendir úr landi vegna ólögmætrar dvalar

Alls fylgdi lögreglan 115 einstaklingum úr landi vegna ólögmætrar dvalar árið 2025. Þetta er 37% fjölgun frá því árið á undan þegar 84 var vísað úr landi. 213% aukning hefur átt sér stað frá því árið 2023 þegar 36 var vísað úr landi vegna ólögmætrar dvalar. Lögreglan segir í tilkynningu á vefsíðu sinni að fjölgun í afgreiðslu mála þeirra sem hafa dvalið ólöglega í landinu megi rekja til öflugs starfs lögregluembættanna og skilvirks samstarfs við heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra. Brottvísunum fyrrum umsækjenda um alþjóðlega vernd fækkar Heildarfjöldi mála sem var lokið hjá heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra voru 388 mál árið 2025, samanborið við 369 mál árið 2024. Þetta samsvarar 5% aukningu. Árið 2023 var heildarfjöldi lokaðra mála 216 og er því um 80% aukningu að ræða síðan þá. Þegar horft er til tegundar mála eru fyrrum umsækjendur um alþjóðlega vernd stærsti hópurinn sem vísað er úr landi. Nánast helmingur allra lokaðra mála sneri að fólki úr þessum hópi eða 195. Fækkað hefur í þeim hópi síðan 2024 þegar 231 úr þeim hópi var vísað úr landi. Fjöldinn er þó ekki kominn niður fyrir þann fjölda sem var vísað úr landi 2023 þegar 124 tilfelli voru skráð.