Fólk hefur týnst í kerfinu

Fólk í öryggisgæslu er vistað víða um land, oftast í íbúðarhúsum og yfirleitt þegar talið er að af því stafi hætta. Verði frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum verður öll öryggisgæsla á einum stað, í nýrri miðstöð um öryggisráðstafanir sem á að reisa á Hólmsheiði. Frumvarpinu var dreift á Alþingi skömmu fyrir jól - en hefur ekki komist á dagskrá. Þar segir að gildandi lög hafi verið sett fyrir meira en 80 árum, úrræði hafi verið af skornum skammti,ekki hafi verið skýrt í hverju öryggisgæsla felist ábyrgð hafi verið óljós og fólk hafi týnst í kerfinu. Ráðherra hafði samráð við Geðhjálp og fleiri samtök. Dæmi eru um að fólk sem þarf að sæta öryggisgæslu hafi týnst í kerfinu vegna úrræðaleysis og óljósrar ábyrgðar. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar fagnar öryggisgæsluhúsi sem verður á Hólmsheiði. Vistun fyrir einn hefur kostað 414.000 krónur á dag. Þarf ekki að vera hættulegt fólk „Það hafa bara verið íbúðarhús hingað og þangað þar sem hefur verið útbúin einhvers konar öryggisíbúð þar sem einstaklingur eða einstaklingar búa,“ segir Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar. „Fólk sem sætir öryggisvistun þarf ekki endilega að vera hættulegt fólk. Það þarf ekki að vera hættulegt þér eða okkur. Og það þarf ekki að vera hættulegt að það sé í íbúðabyggð.“ Í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á almennum hegningarlögum sem nú er til meðferðar á Alþingi er lagt til að hægt verði að dæma fólk til að sæta öryggisgæslu til að varna því að hætta stafi af því. Vistun fyrir einn kostar 414 þúsund á dag Í nýju miðstöðinni verða allt að 16 vistaðir í einu og þar verða 90 starfsmenn. Nú sæta 14 manns öryggisráðstöfunum á nokkrum stöðum á landinu og kostnaður á hvern þeirra er 151 milljón á ári - eða 414.000 krónur á dag en áætlað er að kostnaður lækki þegar nýtt húsnæði hefur verið tekið í notkun. „Það kostar auðvitað þegar einstaklingur er einn í húsi og það eru sólarhringsvaktir og jafnvel margir starfsmenn,“ segir Grímur sem segir miðstöðina gott fyrsta skref, en þörf sé á áframhaldandi stuðningi við þennan hóp. „Það vantar öll þessi stig, frá því að vera einhversstaðar á vegum hins opinbera lokaður inni yfir í að geta búið einn og sjálfur. Þetta er jaðarsettur hópur og þetta er fólkið sem við viljum helst ekki vita af,“ segir Grímur.