Segist ekki gefast upp fyrr en Trump lætur af ásókn sinni í Grænland

Forsætisráðherra Danmerkur fundaði í Osló í dag með utanríkisráðherra Noregs. Í kjölfar fundarins héldu þeir Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Esben Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, blaðamannafund. Þeir eru fullvissir um samstöðu Evrópuríkja í viðbrögðum við yfirlýsingum Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um kaup á Grænlandi. Þeir segja mikilvægt að tryggja öryggi á norðurslóðum. Rasmussen vill halda samningaviðræðum við Bandaríkin opnum svo að Trump hætti ásókn sinni í Grænland. Fjallað var um málefni Grænlands í kvöldfréttum sjónvarps. Evrópuríki eru tilbúin til að takast á við áskoranir, bæði nú og í framtíðinni. Þetta sögðu forsætisráðherra Danmerkur og utanríkisráðherra Noregs eftir fund sinn í Osló í dag. Vilja uppbyggilegar samningaviðræður við bandarísk stjórnvöld Rasmussen segir að dönsk stjórnvöld, hafi frá upphafi, viljað samningaviðræður við stjórnvöld í Bandaríkjunum. Viðræðurnar þurfi að fara fram fjarri samfélagsmiðlum og án yfirlýsinga í fjölmiðlum. Hann segist ekki gefast upp fyrr en Trump láti af ásókn sinni í Grænland. Eide segir ríkin tilbúin til að takast á við áskoranir nú og í framtíðinni. Bæði með NATO og í samstarfi við Danmörku og Bandaríkin. Trump tilkynnti í gær um nýja tolla á Danmörku og fleiri Evrópuríki sem flytja vörur til Bandaríkjanna, frá 1. febrúar. Fyrr í dag sendu löndin átta sem Bandaríkjaforseti hefur hótað nýjum tollum frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Í henni segir að löndin muni standa saman að því að efla öryggisvarnir á norðurslóðum. Í yfirlýsingunni lýsa löndin yfir fullri samstöðu með Danmörku og grænlensku þjóðinni. Þau segjast tilbúin í viðræður við Bandaríkin en að viðræðurnar þurfi að byggja á meginreglunni um fullveldi ríkja. Þá segja þau hótanir um tolla grafa undan samstarfi þjóða. Öldungadeildarþingmenn vilja frekar auka öryggi Alaska Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir, sérfræðingur hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, sagði í fréttum sjónvarps í kvöld að afstaða Evrópuleiðtoga til áforma Trumps sé afdráttarlaus. Hún segir að dönsk stjórnvöld hafi ítrekað að engin kínversk eða rússnesk skip séu að ógna öryggi Grænlands. Dönsk stjórnvöld hafi jafnframt boðið bandarískum stjórnvöldum til viðræðna um aukna hernaðarlega viðveru á Grænlandi. Guðbjörg Ríkey segir að á Barentshafi hafi bæði kínversk og rússnesk herskip verið með heræfingar. Öldungadeildarþingmenn Alaska-ríkis hafi bent á þá hættu á bandaríska þinginu og sagt hættuna vera meira heima við en á Grænlandi. Þingmennirnir hafa kallað eftir aukinni hernaðarlegri uppbyggingu í Alaska, fremur en á Grænlandi.