Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, mun leiða sameiginlegan lista Vor til vinstri og Vinstrihreyfingarinnar Grænt framboð í Reykjavík, þetta var boðað með fréttatilkynningu fyrr í dag. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs í borgarstjórn, segir það ekki sinn skilning að samþykkt hafi verið endanlega á félagsfundi VG í Reykjavík í dag að bjóða sameiginlega fram. Sanna segir að niðurstaða fundarins sé skýr, Vinstri grænir hafi samþykkt framboðið. Hún segist treysta því að hægt sé að leysa úr þessu. „Ég hef auðvitað átt mjög gott samstarf með henni, Líf, í borginni og hérna, hún er félagi. Ég treysti því að við getum leyst úr þessu.“ Píratar ekki með Fulltrúar Pírata, Vinstri grænna og Vors til vinstri funduðu saman um sameiginlegt framboð. Sanna segir að ekki hafi þau komist lengra á þeim forsendum sem verið var að ræða, hins vegar sé hægt að finna alls konar leiðir til þess að vinna saman. „En ég trúi því að við getum fundið leiðir til að vinna saman í einhverju öðru, annarri útfærslu og þar til dæmis hefur verið nefnt mögulegt kosningabandalag.“ Líf Magneudóttir, oddviti VG í Reykjavík, segir það ekki sinn skilning að sameiginlegt framboð VG í Reykjavík og Vors til vinstri hafi verið samþykkt á félagsfundi. Sanna treystir því að hægt verði að leysa úr málinu.